Hoppa yfir valmynd
27. maí 2019 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Leigudagurinn – dagskrá samráðsdags stjórnvalda um leigumarkaðinn

Við Njálsgötu - myndHugi Ólafsson

Félagsmálaráðuneytið og Íbúðalánasjóður boða til opins fundar á Hilton Reykjavík Nordica miðvikudaginn 29. maí undir yfirskriftinni Leigudagurinn. Fundurinn er haldinn í tilefni af fyrirhuguðum breytingum á húsaleigulögum á komandi löggjafarþingi í tengslum við lífskjarasamningana. Dagskrá fundarins liggur nú fyrir. Hún verður í formi stuttra erinda, vinnustofa og pallborðsumræðna.

Tilgangur fundarins er að eiga víðtækt samráð við hagsmunaaðila um endurskoðun húsaleigulaga  til að bæta réttarstöðu og húsnæðisöryggi leigjenda. 

Síðastliðið haust skipuðu stjórnvöld átakshóp um aukið framboð á íbúðum og aðrar aðgerðir til að bæta stöðu á húsnæðismarkaði. Meðal tillagna átakshópsins er að fram fari endurskoðun á ákvæðum húsaleigulaga til að bæta réttarstöðu leigjenda til dæmis hvað varðar: 

  • Ákvörðun leigufjárhæðar í upphafi leigu og heimildir til breytinga á henni á leigutíma, óháð því hvort um tímabundinn samning eða endurnýjun á tímabundnum samningi sé að ræða
  • Lengd og uppsögn leigusamninga, þ.m.t. skilgreiningu á langtímaleigu
  • Möguleg úrræði og viðurlög við brotum gegn ákvæðum húsaleigulaga

Í því sambandi var lagt til grundvallar að gæta verði að því að breytingar á húsaleigulögum hækki ekki leiguverð eða dragi úr framboði á leigumarkaði. 

Stjórnvöld boða til fundarins til að fá fram hugmyndir og sjónarmið allra sem láta sig varða velferð almennings á sviði húsnæðismála áður en vinna hefst við frumvarp um breytingu á húsaleigulögum.

Dagskrá fundarins er meðfylgjandi. Boðið verður upp á morgunhressingu og léttan hádegisverð fyrir fundarmenn. Athugið að sætaframboð er takmarkað og því er æskilegt að skrá sig til þátttöku.

Dagskrá

8:30 Morgunhressing

9:15 Opnunarávarp - Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra

9:30 Framsöguerindi

  • Lísa Margrét Sigurðardóttir, lögfræðingur í félagsmálaráðuneytinu
    Húsaleigulög: ákvörðun leigu, lengd leigusamnings, uppsögn og úrræði.
  • Margrét Kristín Blöndal, formaður Samtaka leigjenda á Íslandi
    Frá sjónarhóli leigjenda.
  • Marinó Örn Ólafsson, lánasjóðsfulltrúi Stúdentaráðs Háskóla Íslands
    Frá sjónarhóli námsmanna.
  • María Björk Einarsdóttir, framkvæmdastjóri Ölmu
    Fjölbreytni, framboð og fagmennska.
  • Sigurður Helgi Guðjónsson, framkvæmdastjóri Húseigendafélagsins
    Frá sjónarhóli hins almenna leigusala.

10:00 Vinnustofur

12:15 Hádegishlé

13:00 Pallborðsumræður undir stjórn Sigmars Guðmundssonar dagskrárgerðarmanns á RÚV

  • Arnar Gauti Reynisson, framkvæmdastjóri Heimavalla
  • Auður Björg Jónsdóttir, formaður kærunefndar húsamála
  • Ása Ólafsdóttir, prófessor við lagadeild Háskóla Íslands
  • Guðfinna Jóhanna Guðmundsdóttir, varaformaður Húseigendafélagsins
  • Halldór Sævar Guðbergsson, varaformaður Öryrkjabandalags Íslands
  • Hólmsteinn Brekkan, framkvæmdastjóri Samtaka leigjenda á Íslandi

14:15 Fundarslit

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta