Páfi ávarpaði fund fjármálaráðherra í Vatíkaninu
„Við ætlum að leggja okkar af mörkum til að mæta loftslagsvandanum,“ sagði Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra á fundi fjármálaráðherra í Vatíkaninu í dag.Vísindaakademía Páfagarðs boðaði til fundarins, en hann er liður í starfi nýstofnaðs alþjóðlegs vettvangs ráðherranna, CAPE. Vettvangnum er ætlað að hvetja til aðgerða í loftslagsmálum í krafti regluverks og ákvarðana á sviði ríkisfjármála og fjármálamarkaða. Bjarni sagði Ísland hafa verið leiðandi í orkuskiptum, með því að nýta hreinar auðlindir til húshitunar og raforkuframleiðslu. Ætlunin væri að taka enn frekari skref, með orkuskiptum í samgöngum og uppbyggingu innviða fyrir rafbíla, enda hefði ríkisstjórnin sett sér markmið um kolefnahlutleysi árið 2040. Jafnframt gæti framlag Íslands falið í sér útflutning á þekkingu á nýtingu fallorku og jarðhita, sem og áframhaldandi rannsóknir og þróun, meðal annars á niðurdælingu koltvísýrings.
Ráðherrarnir ræddu leiðir til að draga úr losun, bæði tæknilega og með skattalegum hvötum, sem og aðgerðir til að binda kolefni, en á fundinum kom fram að með uppgræðslu og náttúrulegum aðferðum til bindingar, mætti draga úr kolefni í andrúmsloftinu um 30% fram til ársins 2030. Til umræðu var einnig útgáfa grænna skuldabréfa og hvernig breyta mætti fjárfestingarstefnu opinberra sjóða, með áherslu á græn verkefni.
Frans páfi ávarpaði fundinn en í máli hans kom fram að aðgerðaleysi á heimsvísu vekti furðu. Fyrir einungis tveimur vikum hefði koltvísýringur í andrúmslofti mælst meiri en nokkru sinni fyrr, eða 415 ppm og afleiðingar loftslagsbreytinga væru ljósar um heim allan. „Vð sjáum hitabylgjur, þurrka, skógarelda, flóð og aðrar veðurfræðilegar hamfarir, hækkandi yfirborð sjávar, sjúkdóma og önnur vandamál sem eru alvarlegur fyrirboði um enn verri hluti, ef við bregðumst ekki við og gerum það af alvöru,” sagði páfi. Í lok ræðu sinnar sagðist Frans páfi vona að ráðherrarnir nýttu umboð sitt til að komast að samkomulagi um áætlun sem byggðist á nýjustu upplýsingum loftslagsvísindanna, hreinni orku og ekki síst siðfræði mannlegrar virðingar.