Skýrara regluverk í skipulags- og byggingarmálum
Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra, setti í gær samráðsdag byggingavettvangsins en þar var fjallað um þær áskoranir sem Íslendingar standa frammi fyrir í skipulags- og byggingarmálum. Ásmundur Einar vék þar meðal annars að aðgerðum stjórnvalda í húsnæðismálum í tengslum við lífskjarasamningana.
Íslenski byggingavettvangurinn (BVV) var settur á fót árið 2016 sem samstarfsvettvangur fyrirtækja og stofnana sem koma að byggingarmálum. Á samráðsdegi BVV komu saman aðilar byggingavettvangsins sem og hlutaðeigandi ráðuneyti, fulltrúar húsbyggjenda, hönnuða, skipulagsyfirvalda, byggingaryfirvalda, menntastofnana og fleiri. Markmiðið var að fara yfir tillögur átakshóps um aðgerðir í húsnæðismálum, forgangsraða, útfæra og fræðast um ferli skipulags- og byggingarmála frá mismunandi sjónarhornum.
„Við búum við þá staðreynd að við höfum ekki náð að byggja nægilega margar íbúðir til þess að mæta þörf samfélagsins. Samkvæmt áætlunum er mikið magn í pípunum á næstu árum sem er af hinu góða. Aftur á móti eru sterkar vísbendingar um að þær íbúðir sem nú eru í byggingu séu ekki til þess fallnar að mæta þörfum þeirra sem verst standa á húsnæðismarkaði, það er ungra og tekjulágra,“ sagði Ásmundur Einar.
Hann sagði orsakirnar margþættar „Það hefur vantað upp á áætlanagerð sveitarfélaga sem hefur gert það að verkum að ýmist hefur verið byggt of mikið eða of lítið. Við þessu höfum við þegar brugðist. Skýrari ákvæði hafa verið lögfest um skyldu sveitarfélaga til að vinna húsnæðisáætlanir en Íbúðalánasjóður mun veita þeim mikinn stuðning við gerð þeirra og eftirfylgni,“ sagði Ásmundur Einar.
Hann sagði einnig hafa skort yfirsýn yfir íbúðir í byggingu. „Úr þessu verður bætt með svokallaðri byggingargátt en þar verður ekki aðeins haldið utan um íbúðir og önnur mannvirki í byggingu heldur fáum við líka upplýsingar um stöðu bygginga í því sem næst rauntíma þar sem áfangaúttektir byggingastjóra eru færðar inn í gáttina. Þannig verður hægt að fylgjast með byggingarhraða, sjá hvar flöskuhálsarnir myndast, hvað vel er gert og hvað má betur fara.
Ásmundur Einar sagði húsnæðisáætlanir og byggingargátt þau stjórntæki sem koma til með að skipta mestu máli í húsnæðismálum til framtíðar. „Með þeim tryggjum við að greining fari fram á þörf fyrir húsnæði, áætlanir séu gerðar til að mæta þeim þörfum og að okkur sé gert kleift að fylgjast með því hvernig gengur að byggja í samræmi við þörfina hverju sinni.“