Stofnun samstarfsvettvangs um loftslagsmál og grænar lausnir
Samkomulag um samstarfsvettvang stjórnvalda og atvinnulífs um loftslagsmál og grænar lausnir var undirritað í Ráðherrabústaðnum við Tjarnargötu í dag.
Forsætisráðuneytið, umhverfis- og auðlindaráðuneytið, utanríkisráðuneytið og atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið; Samtök atvinnulífsins, Samtök iðnaðarins, Samorka, Orkuklasinn, Viðskiptaráð Íslands, Bændasamtök Íslands, Íslandsstofa, auk fjölda fyrirtækja standa að samstarfsvettvangnum.
Markmið vettvangsins er að bæta árangur Íslands í loftslagsmálum og miðla fjölbreyttu framlagi landsins á því sviði. Enn fremur að stjórnvöld og atvinnulíf vinni í sameiningu að metnaðarfullum aðgerðum í loftslagsmálum í samræmi við markmið stjórnvalda, þar með talið kolefnishlutleysi árið 2040.
Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra:
„Ríkisstjórnin leggur mikla áherslu á aðgerðir til að stemma stigu við loftslagsvánni en ljóst er að samfélagið allt þarf að taka þátt í þeirri baráttu. Það er von mín að sá áfangi sem við náum í dag með stofnun samstarfsvettvangs stjórnvalda og atvinnulífs um loftslagsmál og grænar lausnir muni skila miklum árangri. Það er ánægjulegt að skynja mikinn vilja íslensks atvinnulífs til að gera betur, nú þarf að virkja kraftinn til góðra verka á þessu sviði.“
Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins:
„Samstarf atvinnulífs og stjórnvalda í loftslagsmálum er nauðsynlegt því öðruvísi náum við ekki tilætluðum árangri. Það er þörf á nýrri hugsun og nýrri tækni til að ná þeim metnaðarfullu markmiðum sem hafa verið sett í málaflokknum. Fjölmörg fyrirtæki hafa þegar hafið þá vegferð að draga úr losun, nýta grænar lausnir í sinni starfsemi eða ráðast í mótvægisaðgerðir. Meðal fyrirtækja ríkir mikill metnaður og vilji til að gera enn meira og betur svo markmið stjórnvalda um kolefnishlutlaust Ísland árið 2040 verði að veruleika. Þá geta íslensk fyrirtæki miðlað þekkingu og grænum lausnum sem nýst geta öðrum löndum til að draga úr losun enda eru loftslagsmál hnattrænn vandi. Stofnun samstarfsvettvangsins er því mikið fagnaðarefni.“
Sérstaða Íslands í loftslagsmálum er fólgin í því að nær öll staðbundin orkuframleiðsla á landinu byggist á endurnýjanlegum orkugjöfum, hvort sem er til raforkuframleiðslu eða húshitunar. Með samstarfsvettvanginum verður lögð áhersla á að miðla upplýsingum um þann árangur sem náðst hefur hér á landi í áranna rás og þær breytingar sem fram undan eru með þriðju orkuskiptunum. Með orkuskiptum í samgöngum, aukinni kolefnisbindingu og að lokum kolefnishlutleysi getur Ísland orðið fyrirmynd á alþjóðavísu í loftslagsmálum. Til að svo megi verða þurfa stjórnvöld og atvinnulífið að taka höndum saman.
Helstu verkefni vettvangsins verða:
- Kynning á fjölbreyttu framlagi Íslands til loftslagsmála til þessa sem og markmið og stefnu til framtíðar.
- Að tryggja virkt samstarf stjórnvalda og atvinnulífs um aðgerðir í loftslagsmálum, þar með talið um kolefnishlutleysi árið 2040.
- Stuðningur við markaðs- og viðskiptaþróunarstarf fyrirtækja tengt loftslagsmálum. Íslenskum lausnum varðandi nýtingu endurnýjanlegrar orku verður meðal annars miðlað og unnið að auknum útflutningi vöru, hugvits og lausna sem byggja á íslenskri orkuþekkingu og grænum lausnum.
Fyrirtækjum, samtökum og stofnunum sem láta sig þessi mál varða er velkomið að gerast aðilar að samstarfsvettvangnum í framhaldinu.
Unnur Brá Konráðsdóttir og Sigurður Hannesson eru formenn vettvangsins. Aðrir stjórnarmenn eru: Árni Bragason, landgræðslustjóri, Diljá Mist Einarsdóttir, aðstoðarmaður utanríkisráðherra, Gestur Pétursson, forstjóri Elkem á Íslandi, Guðni A. Jóhannesson, orkumálastjóri, Halldór Þorgeirsson, ráðgjafi, Hólmfríður Sigurðardóttir, umhverfisstjóri Orkuveitu Reykjavíkur, Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar og Katrín Olga Jóhannesdóttir, formaður Viðskiptaráðs.
Íslandsstofa annast rekstur vettvangsins.
Stofnaðilar eru:
- Forsætisráðuneytið
- Umhverfis- og auðlindaráðuneytið
- Utanríkisráðuneytið
- Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið
- Orkuveita Reykjavíkur
- Landsvirkjun
- Landsnet
- Rarik
- Orkusalan
- HS Orka
- Elkem Ísland
- Rio Tinto á Íslandi
- Norðurál
- Alcoa Fjarðaál
- Efla
- Verkís
- Mannvit
- Samtök atvinnulífsins
- Samtök iðnaðarins
- Viðskiptaráð Íslands
- Bændasamtök Íslands
- Íslandsstofa
- Samorka
- Orkuklasinn