Hoppa yfir valmynd
29. maí 2019 Forsætisráðuneytið, Heilbrigðisráðuneytið, Innviðaráðuneytið, Matvælaráðuneytið

Ísland í fararbroddi í aðgerðum til að draga úr útbreiðslu sýklalyfjaónæmis

Ísland ætlar að vera í farabroddi í aðgerðum til að draga úr útbreiðslu sýklalyfjaónæmis. Þá ætla íslensk stjórnvöld, innan ramma alþjóðlegra skuldbindinga og á grundvelli lýðheilsusjónarmiða, að koma í veg fyrir dreifingu matvæla sem í greinast sýklalyfjaónæmar bakteríur. Þetta kom fram á blaðamannafundi sem ríkisstjórnin hélt við tilraunastöð Háskóla Íslands í meinafræði að Keldum í hádeginu í dag.

Ein helsta heilbrigðisógnin

Samkvæmt Alþjóðadýraheilbrigðismálastofnuninni, Sóttvarnastofnun Evrópusambandsins og Matvælastofnun Evrópusambandsins er útbreiðsla sýklalyfjaónæmis ein helsta heilbrigðisógn sem steðjar að mönnum. Sýklalyfjaónæmi á Íslandi hefur þó verið umtalsvert minna vandamál en í nálægum löndum en mikilvægt þykir að stemma stigu við frekari útbreiðslu. Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra og heilbrigðisráðherra undirrituðu yfirlýsingu 8. febrúar sl. um sameiginlegt átak til að draga úr útbreiðslu sýklalyfjaónæmra baktería á Íslandi. Með þeirri undirritun var jafnframt mörkuð opinber stefna stjórnvalda í málaflokknum.

Sýklalyfjaónæmissjóður settur á fót

Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, greindi frá því að ríkisstjórnin hefði samþykkt aðgerðir í málaflokknum að tillögu Kristjáns Þórs Júlíussonar, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, og Svandísar Svavarsdóttur, heilbrigðisráðherra. Aðgerðirnar voru unnar af stýrihópi beggja ráðherra þar sem áttu sæti m.a. sóttvarnalæknir og yfirdýralæknir.

Á meðal helstu tillagna er að:

  • Mynda teymi fimm sérfræðinga þvert á stofnanir sem helgar sig vörnum gegn sýklalyfjaónæmi.
  • Setja á fót „Sýklalyfjaónæmissjóð“. Hlutverk sjóðsins verði m.a. að greiða fyrir skimun og vöktun á sýklalyfjaónæmi í dýrum, matvælum, umhverfi og fóðri.
  • Uppfæra gagnagrunninn Heilsu sem heldur utan um skráningar dýralækna á notkun sýklalyfja í búfé (í dag aðeins nautgripir og hross).
  • Skipa tvo starfshópa sérfræðinga sem annars vegar útbúa viðbragðsáætlanir er fylgja ber þegar sýklalyfjaónæmar bakteríur greinast í dýrum, sláturafurðum og matvælum og hins vegar útbúa leiðbeiningar um skynsamlega notkun og val á sýklalyfjum fyrir dýr, þ.m.t. sníkjudýralyf.
  • Tryggja samvinnu ráðuneyta að stefnumótun vegna aðgerða til að minnka áhættu á dreifingu sýklalyfjaónæmra baktería með ferðamönnum auk fjárveitingar til verkefnisins.

Fjármögnun tryggð

Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra og heilbrigðisráðherra munu verja 45 millj. kr. til að koma þessum verkefnum af stað strax á þessu ári. Jafnframt ætlar ríkisstjórnin að tryggja framtíðarfjármögnun þessa verkefnis.

  • Ísland í fararbroddi í aðgerðum til að draga úr útbreiðslu sýklalyfjaónæmis - mynd úr myndasafni númer 1

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

3. Heilsa og vellíðan
12. Ábyrð neysla og framleiðsla
17. Samvinna um markmiðin

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta