Stafræn þjónusta efld: Ísland verði meðal fremstu í heiminum
Aðgerðaáætlun um eflingu stafrænnar þjónustu var samþykkt á ríkisstjórnarfundi í morgun. Efling þjónustunnar er eitt af forgangsmálum stjórnvalda og því hafa verið unnar tillögur að aðgerðum sem leggja munu grunn að því að Ísland verði á meðal þeirra fremstu í heiminum þegar kemur að stafrænni stjórnsýslu og opinberri þjónustu. Þá mun efling stafrænnar þjónustu skila aukinni hagræðingu í ríkisfjármálum.
Tillögurnar sem samþykktar voru á ríkisstjórnarfundi í morgun eru m.a. að auka sjálfsafgreiðslu á Ísland.is þannig að almenningur geti nálgast þjónustu hins opinbera á einum stað og að einstaklingar hafi beinan aðgang að persónulegum gögnum sem hið opinbera ræður yfir. Stjórnvöld stefna að því að ríkið muni taka að sér útgáfu á rafrænum skilríkjum og jafnframt verða gagnasöfn efld og opnuð almenningi og vísindasamfélagi. Öll umgjörð stjórnsýslunnar um veitingu stafrænnar þjónustu verður efld á næstu árum.
Við ríkisstjórnaskiptin í desember 2017 voru öll málefni upplýsingasamfélagsins flutt til fjármála- og efnahagsráðuneytisins. Þar með var stefnumótun um upplýsingatækni fyrir hið opinbera komin á eina hendi. Í framhaldi af því var stofnaður verkefnahópur innan ráðuneytisins sem gengur undir heitinu „Verkefnastofa um Stafrænt Ísland“. Verkefni sem unnin eru af verkefnastofunni ganga þvert á stofnanir ríkisins og sveitarfélög og tengjast einnig samstarfsverkefnum á grunni Digital North yfirlýsingarinnar. Megináherslur verkefnastofunnar til ársloka 2020 eru þrjár:
- Að auka og bæta stafræna opinbera þjónustu á Ísland.is.
- Að byggja upp og styrkja grunninnviði upplýsingatækni.
- Að auka samrekstur stofnana á sviði upplýsingatækni.
Innviðir eru góðir hér á landi og almenningur treystir stafrænni opinberri þjónustu. Jarðvegur er því góður og tækifæri eru til staðar að hrinda af stað umbótaverkefnum sem munu skila bættri þjónustu til skemmri og lengri tíma fyrir almenning og fyrirtæki. Stafrænt Ísland verður að taka mið af þeirri þróun sem er að eiga sér stað með tilkomu fjórðu iðnbyltingarinnar og þeim tækifærum sem skapast til að auka gagnsæi innan stjórnsýslunnar með öflugri upplýsingatækni sem er forsenda þess að hægt sé markvisst efla traust á stjórnsýslu og stjórnmálum.