Mikilvægt samráð vegna fyrirhugaðra breytinga á húsaleigulögum
Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra, setti í síðustu viku opinn fund félagsmálaráðuneytisins og Íbúðalánasjóðs um leigumarkaðinn. Fundurinn bar yfirskriftina Leigudagurinn en tilgangur hans var að efna til samráðsvettvangs í tilefni af fyrirhuguðum breytingum á húsaleigulögum.
Í dag er talið að um 17 prósent einstaklinga, 18 ára eða eldri, séu á leigumarkaði. Það svarar til hátt í 50.000 fullorðinna einstaklinga. Þegar litið er til aldurs- og tekjudreifingar leigjenda kemur í ljós að um 60 prósent eru á aldrinum 18-34 ára. Þá eru þrjú af hverjum fjórum heimilum á leigumarkaði með samanlagðar heimilistekjur undir 800.000 krónum á mánuði og meira en helmingur með undir 550.000 krónum. Á sama tíma berast reglulega fréttir af tíðum leiguhækkunum en leiguverð hefur hækkað mikið samhliða hækkun fasteignaverðs og skorti á leiguhúsnæði sem rekja má til almenns skorts á íbúðarhúsnæði.
„Sífelld hækkun á leiguverði hefur vitaskuld reynst leigjendum þungbær og gert þeim sem stefna að íbúðarkaupum enn erfiðara að safna fyrir útborgun. Staða þessa hóps er erfið og eru leigjendur miklu líklegri en aðrir hópar á húsnæðismarkaði til að búa við íþyngjandi húsnæðiskostnað,“ sagði Ásmundur Einar.
Hann sagði stjórnvöld vinna að margvíslegum aðgerðum í húsnæðismálum sem meðal annars er ætlað að draga úr óuppfylltri þörf á íbúðarhúsnæði og draga úr sveiflum á markaði. Húsnæðismál hafa að sögn Ásmundar Einars verið sett í forgang en til marks um það má nefna að þriðjungur þeirra 38 aðgerða sem ríkisstjórnin lagði fram í tengslum við lífskjarasamningana snúa að húsnæðismálum.
Á meðal aðgerða eru ráðstafanir til að auðvelda fólki fyrstu kaup fasteignar, lækka húsnæðisskuldir, auka verulega framboð á almennum íbúðum og bæta réttarstöðu og húsnæðisöryggi leigjenda með endurskoðun húsaleigulaga.