Hoppa yfir valmynd
7. júní 2019 Utanríkisráðuneytið

Efnahagssamráð við Bandaríkin og Japan

Manisha Singh, starfandi aðstoðarráðherra Bandaríkjanna í málefnum hagvaxtar, orku- og umhverfismála, fór fyrir bandarísku sendinefndinni og Nikulás Hannigan, skrifstofustjóri viðskiptaskrifstofu utanríkisráðuneytisins, leiddi íslensku sendinefndina. - mynd
Í dag fór fram fyrsti fundur Íslands og Bandaríkjanna í reglulegu viðskiptasamráði sem komið var á fót á fundi utanríkisráðherra ríkjanna í Reykjavík í febrúar síðastliðinn. Manisha Singh, starfandi aðstoðarráðherra Bandaríkjanna í málefnum hagvaxtar, orku- og umhverfismála, fór fyrir bandarísku sendinefndinni og Nikulás Hannigan, skrifstofustjóri viðskiptaskrifstofu utanríkisráðuneytisins, leiddi íslensku sendinefndina sem var skipuð fulltrúum nokkurra ráðuneyta. Auk þess tóku fulltrúar atvinnulífsins þátt í sérstökum pallborðsumræðum um viðskipti milli ríkjanna.

Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra sagðist ánægður með að viðskiptasamráðið sem hann og Mike Pompeo, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, sammæltust um á fundi sínum í febrúar væri nú orðið að veruleika. “Bandaríkin eru mikilvægasta viðskiptaland Íslands og ljóst að aukið samstarf á sviði viðskipta og efnahagsmála getur skilað neytendum og útflytjendum miklum ávinningi. Ég tel einnig mikilvægt að atvinnulífið fái tækifæri til að koma sínum sjónarmiðum að, hvort sem er í undirbúningsferlinu eða með beinum hætti líkt og í dag,” sagði Guðlaugur Þór.

Í sameiginlegri fréttatilkynningu ríkjanna segir að ríkin muni áfram efla samskiptin á sviði efnahagsmála. Á fundinum var ákveðið að stofna vinnuhóp um efnahagslega valdeflingu kvenna, standa fyrir áframhaldandi upplýsingaskiptum og samstarfi um skimun erlendra fjárfestinga, og efla enn frekar samstarf um verndun innviða, einkum á sviði tölvufjarskipta. Í lok mánaðarins munu embættismenn halda áfram viðræðum um viðskipti og fjárfestingar milli ríkjanna.

Í dag fór einnig fram tvíhliða efnahagssamráð milli Íslands og Japans í Tókýó. Af Íslands hálfu sóttu fundinn fulltrúar utanríkisráðuneytisins og atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins, ásamt sendiherra og viðskiptafulltrúa í sendiráði Íslands í Tókýó.

Fulltrúar japönsku ráðuneytanna kynntu stöðuna á yfirstandandi fríverslunarviðræðum Japans við önnur ríki. Af hálfu Íslands var lögð áhersla á að hafnar yrðu könnunarviðræður um mögulegar fríverslunarviðræður. Rætt var um núverandi viðskipti landanna, en Japan er mikilvægur markaður fyrir íslenskar vörur og þjónustu, m.a. sjávarafurðir, heilbrigðistækni og landbúnaðarvörur.

Rætt var um aukna möguleika á tvíhliða fjárfestingum og tækifæri í nýsköpun, en fjölbreyttur hópur fyrirtækja á Íslandi á í viðskiptum við Japan. Stefnt er að öðrum fundi þar sem greindar verða forsendur fyrir því að hefja fríverslunarviðræður.
  • Nikulás Hannigan, skrifstofustjóri viðskiptaskrifstofu utanríkisráðuneytisins, leiddi sendinefndina. Á myndinni eru einnig Kristín Árnadóttir, sendiherra jafnréttismála, og Kristinn F. Árnason sendiherra. - mynd
  • Bergþór Magnússon, staðgengill skrifstofustjóra viðskiptaskrifstofu utanríkisráðuneytisins, og Elín Flygenring, sendiherra Íslands í Japan, leiddu viðræðurnar við Japan fyrir Íslands hönd. Kyoko Hokugo, skrifstofustjóri í japanska utanríkisráðuneytinu leiddi sendinefnd Japans. - mynd

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta