Verkefni um þjóðgarð á miðhálendinu í kynningu: Mörk þjóðgarðs, verndarflokkar ofl.
Nefnd um stofnun þjóðgarðs á miðhálendinu óskar eftir umsögnum um drög að skilgreiningu marka þjóðgarðsins, áherslur um skiptingu landsvæða í verndarflokka og umfjöllun um aðkomuleiðir og þjónustumiðstöðvar. Frestur til að skila umsögnum er til 30. júní.
Nefndin leggur til að almenn mörk miðhálendisþjóðgarðs miðist við þjóðlendur og þegar friðlýst svæði innan miðhálendisins.
Í tillögu nefndarinnar er gert ráð fyrir að mismunandi verndarflokkar gildi um mismunandi svæði innan miðhálendisþjóðgarðs. Einnig telur nefndin að hægt sé að leggja til að orkuvinnslusvæði sem þegar eru í nýtingu á svæðinu verði innan miðhálendisþjóðgarðs. Hins vegar gerir nefndin ekki ráð fyrir nýjum orkuvinnslusvæðum innan þjóðgarðsins. Þó bendir hún á að ekki ætti að útiloka orkubúskap til framleiðslu á orku fyrir starfsemi á miðhálendinu, s.s. vegna ferðaþjónustu eða öryggismála að því gefnu að orkuframleiðslan sé sjálfbær og í samræmi við stjórnar- og verndaráætlun fyrirhugaðs þjóðgarðs.
Loks flokkar nefndin mögulegar þjónustumiðstöðvar miðhálendisþjóðgarðs í þrjá flokka eftir umfangi og hlutverki miðstöðvanna, þ.e. svokallaðar þjóðgarðsgáttir, hálendismiðstöðvar og þjónustustaði á hálendinu og setur fram kort sem sýnir tillögur að staðsetningum fyrstu tveggja flokkanna. Tillögurnar byggja á stöðum sem nefndir voru af hagaðilum á fundarferð nefndarinnar um landið.
Umsögnum um reglugerðardrögin skal skilað í Samráðsgátt Stjórnarráðsins eigi síðar en 30. júní næstkomandi.
Verkefni nefndar um stofnun þjóðgarðs á miðhálendinu í Samráðsgátt