Framkvæmdastjóri Atlantshafsbandalagsins í heimsókn á Íslandi
Heimsókn Stoltenbergs hófst í morgun á öryggissvæðinu á Keflavíkurflugvelli þar sem hann kynnti sér starfsemina í stjórnstöð Atlantshafsbandalagsins. Forstjóri og starfsfólk Landhelgisgæslunnar sýndu stjórnstöðina og sögðu frá rekstri ratsjárkerfisins sem Ísland sinnir fyrir bandalagið. Einnig kynntu yfirmenn bandarískrar flugsveitar verkefni og flugvélar vegna eftirlits og vöktunar hafsvæðisins í grennd við Ísland.
Framkvæmdastjórinn átti því næst vinnufund með Guðlaugi Þór Þórðarsyni utanríkisráðherra þar sem rætt var um öryggismál á norðurslóðum og Norður-Atlantshafi, norrænt öryggismálasamstarf, formennsku Íslands í Norðurskautsráðinu og samstarf á norrænum vettvangi um varnar- og öryggismál. Áherslur Íslands á jafnréttismál í bandalaginu og verkefnum þess, aukin þátttaka í uppbyggingu eftir stríðsátök og þjálfunar- og ráðgjafarverkefni voru einnig til umræðu. Framkvæmdastjórinn hefur farið þess á leit að Ísland taki að sér eftirlitshlutverk og stuðning við Kósóvó til að opna fleiri flugleiðir til landsins. Takmarkanir á aðflugsleiðum snúa að pólitískum erfiðleikum á svæðinu og lengir það ferðir, eykur eldsneytiskostnað og mengun. Verkefni bandalagsins í Kósóvó, KFOR, er unnið á grundvelli ályktunar öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna og styður við öryggi og stjórnun landsins.
Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, fundaði síðdegis með framkvæmdastjóranum í Ráðherrabústaðnum við Tjarnargötu, þar sem m.a. var rætt um kjarnorkuvopnatakmarkanir og afvopnunarmál, fjölþáttaógnir og netöryggismál og stöðu jafnréttismála. Síðast en ekki síst ræddu þau um málefni Norðurskautsins, þá umhverfisvá sem stafar af aukinni umferð um svæðið og mikilvægi þess að eiga friðsamlegt samstarf á alþjóðavettvangi um málefni Norðurskautsins.
Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra:
„Í samtali mínu við Jens Stoltenberg lagði ég áherslu á mikilvægi þess að nálgast umræðuna um öryggismál á breiðum grunni. Fjölþátta ógnir og falsfréttir ógna friði með því að grafa undan trausti, og mikilvægum gildum lýðræðis og mannréttinda. Sé markmið okkar að koma í veg fyrir átök, þarf að leggja áherslu á að byggja brýr þar sem pólitískt samtal og samráð þarf alltaf að vera í fyrirrúmi.“
Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkisráðherra:
„Við Íslendingar eigum traustan bandamann í Jens Stoltenberg og það er mikilvægt að geta átt við hann reglulegt samtal um varnir og öryggi á svæðinu í kringum landið okkar. Þá eru mjög áhugaverð verkefni framundan í Kósóvó en á sínum tíma gegndu íslensk flugmálayfirvöld mikilvægu hlutverki við uppbyggingu á Pristina-flugvelli með vottun flugvallarins og þjálfun flugumferðarstjóra. Nú gefst okkur aftur kostur á að leggja okkar af mörkum til að styðja við uppbyggingu og öryggi þar í landi.“
Að loknum fundi með forsætisráðherra sótti framkvæmdastjórinn fund Þjóðaröryggisráðs, sem forsætisráðherra stýrði, þar sem rædd var staða öryggismála á alþjóðavísu og áherslur Íslands. Einkum var áhersla lögð á nýjar og vaxandi fjölþættar ógnir sem beinast að samfélagsinnviðum, netöryggi og viðbúnaði sem ríki þurfa að búa yfir til þess að mæta slíkum áskorunum. Í framhaldinu heimsótti hann Alþingi og fundaði með utanríkismálanefnd.
Síðar í dag flytur Stoltenberg svo erindi á opinni málstofu í Norræna húsinu á vegum Alþjóðamálastofnunar Háskóla Íslands, utanríkisráðuneytisins og Varðbergs. Heimsókninni lýkur með kvöldverði í boði forsætisráðherra.