3200 manns heimsóttu opið hús í Stjórnarráðinu
Auk opins húss í Stjórnarráðinu voru Alþingi, Hæstiréttur, Héraðsdómur Reykjavíkur, Seðlabanki Íslands og Hafrannsóknarstofnun opin almenningi frá klukkan 14:00 til 18:00 í gær. Í Stjórnarráðinu og á Alþingi var lögð áhersla á að sýna húsakynni og sýnt var myndband um Stjórnarráðið.
Í Hæstarétti var leiðsögn á hálftíma fresti yfir daginn þar sem gestir voru fræddir um sögu, húsnæði og starfsemi réttarins en Hæstiréttur verður 100 ára á næsta ári. Héraðsdómur Reykjavíkur, í samstarfi við lagadeildir Háskóla Íslands og Háskólans í Reykjavík, stóðu fyrir sýndarréttarhöldum. Í Seðlabanka Íslands var m.a. til sýnis gullstöng og sýning á munum tengdum Halldóri Kiljan Laxness sem Seðlabankanum hefur verið falið að varðveita og þ. á m. eru sjálf Nóbelsverðlaunin. Einnig var sýnt úrval málverka í eigu Seðlabankans. Hafrannsóknastofnun var með fiska til sýnis í 10 körum við Sjávarútvegshúsið, upplýsingasetur á jarðhæð hússins var opið og starfsemi stofnunarinnar kynnt á myndböndum í bíósal.