Fyrsti stjórnarnefndarfundur Norðurskautsráðsins í formennskutíð Íslands haldinn í Reykjanesbæ
Ísland tók í byrjun maí síðastliðnum við formennsku í Norðurskautsráðinu til næstu tveggja ára. Dagana 18.-19. júní var fyrsti stjórnarfundur embættismannanefndar ráðsins, á formennskutíma Íslands, haldinn í Hljómahöllinni í Reykjanesbæ. Með fundinum er hrundið af stað röð reglubundinna funda Norðurskautsráðsins og tengdra viðburða sem fara munu fram víðsvegar um landið næstu tvö árin.
Orkumál og bláa lífhagkerfið eru áhersluatriði í formennskuáætlun Íslands í ráðinu og fengu fundargestir kynningu á Hitaveitu Suðurnesja og frumkvöðlastarfi fiskvinnslufyrirtækjanna Haustaks og Codland á Suðurnesjum, auk þess að fá innsýn í nýtingu Stolt Sea Farm á affallsvatni frá virkjuninni í flúrueldi. Kjartan Már Kjartansson, bæjarstjóri Reykjanesbæjar, gerði grein fyrir uppbyggingarstarfi á svæðinu m.a. innan Auðlindagarðsins á Suðurnesjum.
Á tveggja ára formennskutíma Íslands munu fundir Norðurskautsráðsins fara fram í öllum landsfjórðungum. Næstu fundir á vegum ráðsins verða í september á Ísafirði og í Reykjavík en auk þess eru ráðgerðir fundir í Hveragerði, á Akureyri og Egilstöðum. Norðurslóðatengdir viðburðir á Íslandi verða vel á þriðja tug á þessu tveggja ára tímabili.
Meginverkefni Norðurskautsráðsins er að efla samstarf á sviði sjálfbærrar þróunar og umhverfisverndar og hefur embættismannanefndin yfirumsjón með störfum ráðsins. Aðildarríki ráðsins eru átta auk þess sem sex samtök frumbyggja á Norðurslóðum eiga fastan og fullan þátttökurétt. Til viðbótar eiga þrettán ríki, fjórtán alþjóðastofnanir og tólf frjáls félagasamtök áheyrnaraðild að ráðinu.
Frekari upplýsingar um Norðurskautsráðið og formennsku Íslands í ráðinu má finna á Stjórnarráðsvefnum. Einnig er hægt að fylgjast með formennsku Íslands á Twitter, @IcelandArctic.