Vel heppnaðir kynningarfundir um nýja heilbrigðisstefnu fyrir norðan og vestan
Opinn kynningarfundur sem Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra efndi til um heilbrigðisstefnu til ársins 2030 var haldinn á Ísafirði í gær og annar fundur á Akureyri fyrir viku. Ráðherra mun standa fyrir sambærilegum fundum í öllum heilbrigðisumdæmum landsins í samvinnu við heilbrigðisstofnanir umdæmanna. Umfjöllunin snýst um efni og innleiðingu stefnunnar og líkleg áhrif hennar á heilbrigðisþjónustu við íbúa í viðkomandi heilbrigðisumdæmum og á landsvísu.
Fundurinn á Ísafirði hófst með umfjöllun Svandísar Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra sem kynnti megináherslur og inntak stefnunnar. Næst fjallaði Gylfi Ólafsson, forstjóri Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða um þá sýn sem hann hefur á stefnuna og hvaða áhrif hann telur að hún geti haft fyrir heilbrigðisþjónustu við íbúa í heilbrigðisumdæminu. Þátttakendur í pallborðsumræðum voru auk frummælenda Elsa B. Friðfinnsdóttir, skrifstofustjóri í heilbrigðisráðuneytinu, Guðmundur Gunnarsson, bæjarstjóri Ísafjarðarbæjar, Helga Sif Friðjónsdóttir, deildarstjóri göngudeildar geðsviðs Landspítala og Jón Páll Hreinsson, bæjarstjóri Bolungarvíkurkaupstaðar. Fundarstjóri var Peter Weiss forstöðumaður Háskólaseturs Vestfjarða.
Streymt var beint frá fundinum á Facebook-síðu Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða og geta áhugasamir nálgast þar upptöku frá fundinum.
Fyrir fundinn heimsótti heilbrigðisráðherra hjúkrunarheimilið Berg í Bolungarvík, kynnti sér starfsemi Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða á Ísafirði, ræddi við starfsfólk og fundaði ásamt fulltrúum heilbrigðisráðuneytisins með framkvæmdastjórn stofnunarinnar. Í henni eiga sæti Gylfi Ólafsson forstjóri, Andri Konráðsson framkvæmdastjóri lækninga, Hörður Högnason framkvæmdastjóri hjúkrunar, Kristjana Milla Snorradóttir mannauðs- og rekstrarstjóri, Svava Magnea Matthíasdóttir hjúkrunarstjóri Patreksfirði og Þórir Sveinsson fjármálastjóri
Fundurinn á Akureyri var haldinn í Hofi á Akureyri 12. júní síðastliðinn. Frummælendur voru auk heilbrigðisráðherra þeir Jón Helgi Björnsson, forstjóri Heilbrigðisstofnunar Norðurlands og Bjarni Jónasson, forstjóri Sjúkrahússins á Akureyri sem gerðu grein fyrir þeirri sýn sem þeir hafa á stefnuna og þýðingu hennar fyrir starfsemi stofnananna sem þeir stjórna. Að loknum erindum þeirra og fyrirspurnum úr sal voru pallborðsumræður. Í pallborði sátu auk frummælenda Valdimar O. Hermannsson, bæjarstjóri á Blönduósi og Elsa B. Friðfinnsdóttir, skrifstofustjóri í heilbrigðisráðuneytinu. Fundarstjóri var Ásthildur Sturludóttir. Streymt var beint frá fundinum og hægt er að sjá upptöku frá fundinum á vef Stjórnarráðsins.
Myndir frá fundunum á Ísafirði og Akureyri eru hér að neðan.