Hoppa yfir valmynd
20. júní 2019 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Kennarafrumvarp samþykkt á Alþingi

Markmið nýrra laga um um menntun, hæfni og ráðningu kennara og skólastjórnenda við leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla er að stuðla að sveigjanlegra skólakerfi – nemendum og kennurum til hagsbóta. Lögin voru samþykkt á Alþingi í gær en með þeim er lögfestur hæfnirammi um menntun og hæfni kennara og skólastjórnenda, í takt við alþjóðlega þróun, sem lýsir betur þeirri hæfni sem kennarar þurfa að búa yfir til samræmis við þá ábyrgð sem felst í starfi þeirra. Við gildistöku laganna falla úr gildi lög um menntun og ráðningu kennara og skólastjórnenda við leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla, nr. 87/2008.

„Við viljum draga fram mikilvægi kennarastarfsins og stuðla að því að þeir sem leggja stund á kennslu- og uppeldisstörf í leik-, grunn-, og framhaldsskólum hafi menntun í samræmi við störf sín og ábyrgð. Þessi nýju lög eru mikilvægt framfaraskref í þá átt og að mínu mati munu þau auka til muna tækifæri kennara til þess að þróa sig í starfi, og stuðla að aukinni samfellu og samstarfi skólastiga,“ segir Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra.

Aukin áhersla er í nýju lögunum á starfsþróun kennara og gæði skólastarfs til samræmis við markmið stjórnvalda um að efla starfsumhverfi kennara og stuðla að faglegu sjálfstæði þeirra líkt og kveðið er á um í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar. Í stað leyfisbréfa á þrjú skólastig verður framvegis gefið út eitt leyfis¬bréf til kennara þvert á skólastig þar sem metin er bæði almenn og sérhæfð hæfni hvers kennara. Ábyrgð skólastjórnenda við mat á hæfni umsækjenda um störf mun því aukast. Þá færist útgáfa leyfisbréfa kennara og veiting undanþága vegna ráðningar leiðbeinenda til Menntamálastofnunar.

Nýju lögin munu hafa áhrif á uppbyggingu og inntak kennaramenntunar til framtíðar. Komið verður á fót kennararáði sem fjalla mun um þróun hæfniramma fyrir menntun kennara og skólastjórnenda. Hlutverk ráðsins verður m.a. að leiðbeina um þau hæfniviðmið sem horfa ber til við skipulag kennaramenntunar, starfsþróunar og ráðninga. Ráðgert er að nemendur sem innritast í kennaranám frá og með skólaárinu 2021–2022 útskrifist af námsbrautum skipulögðum samkvæmt nýjum lögum.

Samkvæmt bráðabirgðaákvæði mun mennta- og menningarmálaráðherra skipa samráðshóp til að fjalla um framkvæmd og innleiðingu nýju laganna en í honum verða fulltrúar leik-, grunn- og framhaldsskóla, Kennarasambands Íslands, skólastjórnenda og menntavísindasviðs Háskóla Íslands og Kennaradeildar Háskólans á Akureyri. Þá hefur ráðherra ákveðið að bjóða fulltrúa Sambands íslenskra sveitarfélaga sæti í samráðshópnum.

Nánari upplýsingum um nýju lögin og þær breytingar sem þeim fylgja verður miðlað á heimasíðu mennta- og menningarmálaráðuneytisins og vef Kennarasambands Íslands.

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

4. Menntun fyrir öll

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta