Áform um friðlýsingar í Garðabæ í kynningu
Umhverfisstofnun hefur kynnt áform um friðlýsingu tveggja svæða í Garðabæ. Annars vegar er um að ræða áform um friðlýsingu Búrfells, Búrfellsgjár og Selgjár sem kynnt eru í samstarfi við Garðabæ og landeigendur. Hins vegar eru kynnt í samvinnu við Garðabæ áform um stækkun fólkvangsins Hliðs.
Búrfell er eldstöð frá nútíma, hlaðin úr gjalli og hraunkleprum, með fallegri og heillegri hrauntröð, Búrfellsgjá og Selgjá, sem er um 3,5 km löng. Frá Búrfelli hefur runnið mikið hraun og er með elstu hraunum sem vitað er um á Heiðmerkursvæðinu. Búrfellsgjá og Selgjá eru yfir 200 m breiðar þar sem þær eru breiðastar og eru veggir þeirra um 5-10 m háir. Innan svæðisins er nokkuð um fornminjar, svo sem Gjáarétt sem er í vesturenda Búrfellsgjár, fyrirhleðslur, Réttargerði og vatnsbólið Vatnsgjá. Menningarminjar þessar voru friðlýstar samkvæmt þjóðminjalögum árið 1964. Svæðið er kjörið til útivistar, umhverfisfræðslu og rannsókna, en Búrfell og nágrenni er vinsælt útivistarsvæði. Hefur svæðið einnig verið vinsæll viðkomustaður ferðamanna og er helsta aðdráttaraflið einstök náttúra og jarðmyndanir.
Hlið var friðlýst sem fólkvangur árið 2002. Markmið friðlýsingarinnar er að tryggja landsvæði til útivistar og almenningsnota. Fjaran og aðliggjandi sjávarsvæði eru sérstaklega áhugaverð til náttúruskoðunar, svo sem fugla- og fjöruskoðunar. Aðgengi að svæðinu er gott og því ákjósanlegt til útikennslu.
Nánari upplýsingar og tillögu að friðlýsingarmörkum má sjá á vef Umhverfisstofnunar.
Áform um friðlýsingu eru kynnt í samræmi við 2. mgr. 38. gr. náttúruverndarlaga en gert er ráð fyrir að svæði sem ekki eru á framkvæmdaáætlun náttúruminjaskrár skulu kynnt sérstaklega.
Nánari upplýsingar um áform um friðlýsingu Hliðs á vef Umhverfisstofnunar