Ráðherrafundi EFTA í Liechtenstein lokið
Staða fríverslunarviðræðna, horfur í alþjóðaviðskiptum, samskiptin við Evrópusambandið og Brexit voru helstu umræðuefnin á ráðherrafundi Fríverslunarsamtaka Evrópu EFTA, sem fram fór í Liechtenstein í dag. Að frumkvæði Íslands verða ákvæði um jafnréttismál eftirleiðis hluti af samningsmódeli EFTA.
Árlegur sumarfundur EFTA-ráðherranna var að þessu sinni haldinn í bænum Malbun í Liechtenstein og sótti Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra fundinn fyrir hönd Íslands. Á fundinum létu ráðherrarnir í ljós áhyggjur af horfum í alþjóðaviðskiptum, meðal annars vegna vaxandi tilhneigingar til verndarstefnu, um leið og þeir ítrekuðu vilja sinn til að standa vörð um frjáls milliríkjaviðskipti sem byggjast á á gagnsæi og skýrum leikreglum.
Ráðherrarnir fögnuðu því að EFTA hefur nú uppfært samningsmódel sitt um sjálfbæra þróun og tekið jafnréttisákvæði inn í það. Frá árinu 2010 hafa allir nýir og uppfærðir fríverslunarsamningar EFTA innihaldið sérstaka kafla um viðskipti og sjálfbæra þróun, þar sem undirstrikaðar eru skuldbindingar ríkjanna á sviði umhverfis- og vinnumála. Átta nýjum greinum er bætt inn í samningsmódelið, meðal annars um viðskipti og loftslagsbreytingar, líffræðilegan fjölbreytileika og sjálfbæra nýtingu fiskistofna. Þá er sérstök grein um jafnrétti kynjanna þar sem ríki skuldbinda sig til að hafa jafnréttissjónarmið að leiðarljósi í viðskiptum sín á milli, en Ísland hefur lagt mikla áherslu á að slíkt ákvæði verði tekið upp í fríverslunarsamninga EFTA. Einnig er ákvæði um jafnréttissjónarmið bætt við formálskafla samningsmódels EFTA.
„Jafnrétti er einn af hornsteinum utanríkisstefnunnar og í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar er lögð áhersla á að við gerð fríverslunarsamninga skuli sérstaklega horft til þess að efla umhverfissjónarmið og mannréttindi, þar með talið réttindi kvenna. Það er fagnaðarefni að ákvæði þess efnis hafi nú verið tekið upp í samningsmódel EFTA að tillögu Íslands,“ segir Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra.
Ráðherrarnir lýstu jafnframt yfir vilja sínum til að halda áfram að víkka út og dýpka fríverslunarnet EFTA. Í því samhengi létu þeir í ljós sérstaka ánægju með framgang viðræðna við suðuramerísku Mercosur-ríkin og væntingar um að þeim lyki innan tíðar. Einnig lýstu þeir yfir vilja sínum um að halda áfram fríverslunarviðræðum við Indland, Víetnam og Malasíu og ljúka uppfærslu á samningum við tollabandalag Suður-Afríkuríkja (SACU) og Palestínu. Þá lýstu ráðherrarnir yfir ánægju með viðræður sem eru framundan við Chile um uppfærslu á fríverslunarsamningi og vilja til að halda áfram að ræða möguleika á uppfærslu samninganna við Kanada og Mexíkó. Þá lýstu þeir yfir áhuga á að styrkja sambandið við ASEAN ríkin og ríki í Afríku sunnan Sahara, einkum Nígeríu og ríki Bandalags Austur-Afríkuríkja (e. East African Community). Sömuleiðis samþykktu ráðherrarnir að undirbúningi fríverslunarviðræðna við Pakistan og Moldóvu yrði fram haldið.
„Aðildin að EFTA hefur reynst Íslendingum afar heilladrjúg enda hefur hún tryggt okkur aðgang að mörkuðum sem ríkin hefðu tæpast getað samið um ein og sér. Það eru spennandi tímar framundan við að stækka fríverslunarnetið enn frekar, fyrirtækjum og neytendum á Íslandi til hagsbóta,“ segir Guðlaugur Þór.
Hvað útgöngu Breta úr Evrópusambandinu varðar áréttuðu ráðherrarnir vilja sinn til að viðhalda nánu viðskiptasambandi EFTA-ríkjanna og Bretlands og til þátttöku í hvers konar bráðabirgðafyrirkomulagi á viðskiptum við Breta uns þau mál hefðu verið til lykta leidd til frambúðar.
Guðlaugur Þór áréttaði á fundinum sérstaklega afstöðu sína til nýrrar tilskipunar ESB um innstæðutryggingar og sagði að ekki kæmi til greina að innleiða slíkt regluverk ef það fæli í sér ríkisábyrgð á innstæðum.
Loks lýstu ráðherrar EFTA-ríkjanna í EES, þ.e. Íslands, Liechtenstein og Noregs, því yfir að EES-samningurinn yrði áfram undirstaðan í samskiptum þeirra við Evrópusambandið en aldarfjórðungur er nú liðinn frá gildistöku hans.
Auk Guðlaugs Þórs sátu fundinn Aurelia Frick, utanríkisráðherra Liechtentstein, Torbjørn Røe Isaksen, iðnaðar- og viðskiptaráðherra Noregs og Guy Parmelin, ráðherra efnahagsmála, menntunar og rannsókna í sambandsstjórn Sviss.