Hoppa yfir valmynd
28. júní 2019 Dómsmálaráðuneytið

Starfshópur til að bæta innheimtuhlutfall skilar skýrslu

Starfshópur til að gera tillögu að lagalegum umbótum sem miða að því að bæta innheimtuhlutfall sekta og sakarkostnaðar hefur nú lokið störfum og skilað skýrslu til dómsmálaráðherra.

Í skýrslunni er gerð grein fyrir verkefninu og niðurstöðum starfshópsins. Tillögurnar lúta einkum að lagabreytingum til að efla innheimtuúrræði með launaafdrætti, skuldajöfnuði og kyrrsetningu, lengingu fyrningarfrests og takmörkun heimildar til fullnustu með samfélagsþjónustu. Jafnframt er að þar að finna tillögu um afplánunarrými vegna vararefsinga sem nú þegar hefur verið tekin til framkvæmda af hálfu dómsmálaráðuneytisins og reynst vel.

Hópurinn var skipaður af þáverandi innanríkisráðherra í október 2016 í samræmi við bráðabirgðaákvæði III í lögum um fullnustu refsinga, nr. 15/2016. Í starfshópinn voru skipuð Snorri Olsen, þáverandi tollstjóri, sem var formaður, Þórunn J. Hafstein, þáverandi skrifstofustjóri í innanríkisráðuneytinu, Birna Ágústsdóttir, lögfræðingur hjá Sýslumanninum á Norðurlandi vestra, Guðrún Inga Torfadóttir, lögfræðingur í fjármála- og efnahagsráðuneytinu, og Hafdís Guðmundsdóttir, skrifstofustjóri hjá Fangelsismálastofnun ríkisins. Kristín Einarsdóttir, lögfræðingur í dómsmálaráðuneytinu kom svo í stað Þórunnar J. Hafstein. Með starfshópnum starfaði Erna Björg Jónmundsdóttir, deildarstjóri hjá Sýslumanninum á Norðurlandi vestra, og Hermann Guðmundsson, lögfræðingur hjá Tollstjóraembættinu, var starfsmaður hópsins.

Samstaða náðist í starfshópnum um öll álitamál sem tekin voru til skoðunar utan einnar tillögu en sérálit má finna í fylgiskjali 1.

„Ég mun nú taka þessa skýrslu til skoðunar í dómsmálaráðuneytinu og fara vel yfir þær tillögur sem þarna er greint frá og byggja á viðamikilli vinnu starfshópsins. Það er mikilvægt að við eigum raunhæf úrræði til innheimtu sekta og sakarkostnaðar en árangur í þeim málum hefur reynst óviðunandi að undanförnu,“ segir Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, dómsmálaráðherra.

Skýrsluna má lesa hér:Skýrsla starfshóps vegna umbóta við að bæta innheimtuhlutfall sekta og sakarkostnaðar.pdf

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta