Hoppa yfir valmynd
22. júlí 2019 Heilbrigðisráðuneytið

Heilbrigðisráðherra skrifar um forsendur forgangsröðunar í heilbrigðiskerfinu

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra  - myndHeilbrigðisráðuneytið

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra fjallar um forgangsröðun í heilbrigðiskerfinu í blaðagrein í dag. Kröfur um forgangsröðun fari vaxandi og þá sé mikilvægt að byggt sé á skýrum viðmiðum og siðferðilegum gildum sem sátt ríki um í samfélaginu. Þetta verður viðfangsefni Heilbrigðisþings 2019 sem haldið verður 15. nóvember. „Vonir mínar standa til þess að ég geti á vorþingi 2020 lagt fyrir Alþingi tillögu til þingsályktunar um þau siðferðilegu gildi og viðmið sem leggja beri til grundvallar við forgangsröðun í heilbrigðiskerfinu“ segir meðal annars í grein ráðherra. Umfjöllun um þessi mál er jafnframt liður í framkvæmd Heilbrigðisstefnu til ársins 2030 sem samþykkt var á Alþingi sem þingsályktun í júní síðastliðnum. Grein heilbrigðisráðherra er eftirfarandi:

Grunngildi í heilbrigðisþjónustu

Heilbrigðiskerfi eru flókin og margþætt og þjónustuveitendur eru margir. Til að heilbrigðiskerfi þjóni hlutverki sínu sem skyldi er grundvallaratriði að fyrir hendi sé öflugt starfsfólk og skilvirkt stjórnkerfi. Heilbrigðisstefna til 2030 sem samþykkt var á Alþingi í byrjun júnímánaðar fjallar meðal annars um skipulag, verkaskiptingu og ábyrgð innan heilbrigðiskerfisins í þágu bættrar þjónustu við sjúklinga.

Stjórnendur og starfsfólk heilbrigðiskerfisins stendur daglega frammi fyrir fjölda erfiðra ákvarðana sem varða líf og heilsu fólks. Auknir möguleikar við greiningu og meðferð sjúkdóma með sívaxandi kostnaði gera auknar kröfur um að ríkið sem greiðandi heilbrigðisþjónustunnar forgangsraði því fjármagni sem er til umráða. Ég held að flestir geti verið mér sammála um að slík forgangsröðun þurfi að hvíla á traustum grunni og geti ekki grundvallast á brjóstviti þeirra einstaklinga sem fara með fjárveitingarvaldið hverju sinni. Sátt þarf að ríkja um helstu gildi og siðferðileg viðmið sem eiga að liggja til grundvallar ákvarðanatöku í heilbrigðiskerfinu.

Á síðustu áratugum tuttugustu aldarinnar hófst umfangsmikil umræða víða um heim um þörfina fyrir forgangsröðun í heilbrigðisþjónustu. Norðmenn gáfu út skýrslu um efnið árið 1987 og tíu árum síðar samþykkti sænska þingið hvaða gildi og siðferðilegar meginreglur skyldu liggja til grundvallar við forgangsröðun í sænska heilbrigðiskerfinu. Í ársbyrjun 1996 skipaði heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra nefnd til að gera tillögur um forgangsröðun í heilbrigðismálum hér á landi sem í kjölfarið skilaði ráðherra skýrslu um efnið. Á sama tíma vann nefnd á vegum Læknafélags Íslands einnig skýrslu sem fjallaði um forgangsröðun í heilbrigðisþjónustu. Þá byggist heilbrigðisstefna Evrópu til ársins 2020 á ákveðnum grunngildum. Efnislega ber sú vinna sem unnin var hér á landi, vinnu nágranna okkar Svía og Norðmanna og heilbrigðisstefnu Evrópu að sama brunni og ákveðinn samhljómur er um helstu gildi og siðferðilegar áherslur sem leggja beri til grundvallar við forgangsröðun í heilbrigðiskerfinu. Þar ber hæst mannhelgi og virðingu fyrir mannlegri reisn ásamt jöfnuði þar sem allir eiga sama rétt til verndar lífs og heilbrigðis og að þeir sem eru í brýnustu þörfinni fyrir heilbrigðisþjónustu á hverjum tíma skuli ganga fyrir.

Forgangsröðun í heilbrigðiskerfinu verður að byggjast á skýrum viðmiðum og siðferðilegum gildum sem öllum eru kunn og ljós og um þessi gildi þarf að ríkja almenn sátt í samfélaginu. Þess vegna hef ég ákveðið að helga heilbrigðisþingið, sem haldið verður 15. nóvember næstkomandi, umræðu um þetta mikilvæga málefni. Vonir mínar standa til þess að ég geti á vorþingi 2020 lagt fyrir Alþingi tillögu til þingsályktunar um þau siðferðilegu gildi og viðmið sem leggja beri til grundvallar við forgangsröðun í heilbrigðiskerfinu.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 22. júlí 2019

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta