Norðurlandameisturum í brids fagnað
Íslenska landsiðið í brids varð Norðurlandameistari eftir sigur á Dönum í hreinum úrslitaleik á Norðurlandamótinu sem fram fór í Kristiansand í Noregi fyrr í sumar. Af því tilefni var landsliðið heiðrað í ráðherrabústaðnum. Liðið hefur átt góðu gengi að fanga undanfarin ár en það varð einnig Norðurlandameistari árin 2013 og 2015.
Brids nýtur talsverðra vinsælda á Íslandi en í dag eru starfandi 28 bridsfélög í öllum landshlutum. Um 1000 manns spila reglulega keppnisbrids í félögum innan Bridgesambands Íslands, auk þess sem fólk spilar brids sér til skemmtunar í heimahúsum og á vinnustöðum.
,,Ég óska liðinu hjartanlega til hamingju með þennan glæsilega árangur. Við getum svo sannarlega verið stolt af gengi landsliða okkar á hinum ýmsu sviðum. Brids á sér ákveðinn stað í hugum margra landsmanna sem hafa unun af því að koma saman og spila. Ég hef fulla trú á góðu gengi liðsins á Evrópumótinu sem fram fer á Madeira á næsta ári og vona svo sannarlega að afrekalisti liðsins lengist enn frekar,‘‘ sagði Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra.
Því var einnig fagnað að Jón Baldursson, einn af meðlimum landsliðsins, var tekinn inn í frægðarhöll (e. Hall of Fame) Evrópska Bridgesambandsins en aðeins 11 einstaklingar hafa notið þess heiðurs.