Hoppa yfir valmynd
4. ágúst 2019 Menningar- og viðskiptaráðuneytið

Menntamálaráðherra heiðursgestur á Íslendingadegi í N-Dakóta

John Johnsson og Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra við minnisvarða Stephan G. Stephanssson. - mynd

Íslendingadagurinn (e. The Deuce of August) í bænum Mountain í Norður-Dakóta Í Bandaríkjunum fer nú fram í 120. skipti. Að honum standa afkomendur Vesturfara sem héldu frá Íslandi til Norður Ameríku á árunum 1875-1914. Talið er að milli 15.000-20.000 Íslendingar hafi flust búferlum og hafið nýtt líf í Vesturheimi, þar á meðan í Norður-Dakóta.

Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra sækir hátíðina í ár en hefð er fyrir því að fulltrúi íslenskra stjórnvalda sæki Íslendingahátíðarnar í Mountain og Gimli í Manitoba sem báðar fara fram um helgina. Ráðherra flutti ávarp af því tilefni og tók þátt í skrúðgöngu.

Í ávarpi sínu færði ráðherra færði Vestur Íslendingum kærar kveðjur frá íslensku þjóðinni og lagði meðal annars áherslu á mikilvægi samskiptanna. Vísaði ráðherra þar einkum til Snorraverkefnisins sem er meðal annars ætlað ungmennum af íslenskum uppruna Í Norður-Ameríku til þess að koma til Íslands og kynnast uppruna sínum. Yfir 500 ungmenni frá Vesturheimi hafa komið til Íslands í gegnum verkefnið þar á meðal frá Mountain.

Ráðherra heimsótti einnig Víkurkirkju í Mountain en kirkjan var byggð árið 1884 og er fyrsta íslenska kirkjan sem reist var í Bandaríkjunum. Árið 2013 var hún sett á lista bandaríska innanríkisráðuneytisins yfir staði með sögulega þýðingu. Þá heimsótti ráðherra einnig minnisvarða um ljóðskáldin og Vesturfaranna Stephan G. Stephanssson og Kristján Níels Jónssonar eða Káinn. 

,,Sú arfleið sem afkomendur Vestur-Íslendinga halda á lofti hér í Norður-Dakóta er virkilega mikilvæg. Fólkið hér leggur mikið á sig til þess að rækta tengsl sín við Ísland og halda sögu okkar og menningu á lofti. Hér á svæðinu fyrirfinnast ennþá afkomendur Íslendinga sem tala íslensku án þess að hafa búið á Íslandi. Þrátt fyrir að rúm 100 ár séu liðin frá því að búferlafluttningar Vesturfaranna liðu undir lok er fólk enn mjög meðvitað um uppruna sinn og er stolt af honum,‘‘ sagði Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra.

Fjölmennur hópur Íslendinga er einnig viðstaddur hátíðahöldin í Mountain og Gimli en reglulega heimsækja hópar frá Íslandi svæði Vesturfaranna í Bandaríkjunum og Kanada. 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta