Leiðbeiningar um beitingu þvingunarúrræða samkvæmt lögræðislögum til skoðunar
Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra hefur skipað starfshóp til að meta hvort þörf sé á að setja frekari leiðbeiningar um útfærslu á þvingunarúrræðum en felast í lögræðislögum varðandi meðferð einstaklinga sem eru nauðungarvistaðir á sjúkrahúsi.
Í 28. gr. lögræðislaga er fjallað um meðferð nauðungarvistaðs einstaklings á sjúkrahúsi. Greininni fylgir ákvæði um að heilbrigðisráðherra geti sett nánari reglur um þvingaða lyfjagjöf og aðra meðferð sem greinin tekur til.
Telji starfshópur heilbrigðisráðherra að þörf sé á frekari leiðbeiningum en lesa má úr lögunum er honum ætlað að gera tillögu um form og helstu efnisákvæði slíkra leiðbeininga. Samkvæmt skipunarbréfi skal hópurinn skila ráðherra niðurstöðum sínum með skýrslu eigi síðar en 15. nóvember næstkomandi.
Í starfshópnum sitja Helga Baldvins Bjargardóttir lögfræðingur, formaður hópsins. Halldóra Jónsdóttir, geðlæknir á Landspítala og Sigrún Ingvarsdóttir, félagsráðgjafi hjá Reykjavíkurborg og Sveinn Rúnar Sveinsson læknir, tilnefndur af Geðhjálp.