Hoppa yfir valmynd
19. ágúst 2019 Forsætisráðuneytið

Forsætisráðherra fundar með forsætisráðherra Finnlands

Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, ásamt Antti Rinne, forsætisráðherra Finnlands - myndSigurjón Ragnar

Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, tók síðdegis í dag á móti forsætisráðherra Finnlands, Antti Rinne, í Ráðherrabústaðnum við Tjarnargötu.

Ráðherrarnir ræddu um stöðu og þróun stjórnmála og efnahagsmála í löndunum og aðgerðir í loftslagsmálum. Þá ræddu þau sérstaklega um formennskuáætlun Íslands í Norðurskautsráðinu og málefni Norðurslóða og þróun mála í Evrópusambandinu þar sem Finnar fara með formennsku í leiðtogaráði ESB seinni hluta þessa árs. Að lokum ræddu þau vísinda- og nýsköpunarstarf en Ísland hefur um margt litið til Finnlands hvað varðar þróun þess málaflokks.

Fundurinn er haldinn í tengslum við sumarfund forsætisráðherra Norðurlandanna sem hefst formlega á morgun. Á þeim fundi verður m.a. fjallað um samnorrænar aðgerðir Norðurlandanna á sviði loftslagsmála og umhverfismála almennt, nýja framtíðarsýn Norrænu ráðherranefndarinnar til næstu 10 ára, málefni Norðurslóða, stöðu mannréttindamála, þ.m.t. jafnréttismála, stöðu alþjóðamála og öryggismál. Sérstaklega verður horft til tækifæra til þess að auka samstarf Norðurlandanna og Þýskalands til að takast á við áskoranir á alþjóðavettvangi, ekki hvað síst afleiðingar loftslagsbreytinga og stuðning við sjálfbæra þróun.
  • Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, ásamt Antti Rinne, forsætisráðherra Finnlands - mynd

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

13. Aðgerðir í loftslagsmálum
17. Samvinna um markmiðin

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta