Hoppa yfir valmynd
19. ágúst 2019 Utanríkisráðuneytið

Fundir utanríkisráðherra með Mary Robinson og Kumi Naidoo, aðalframkvæmdastjóra Amnesty International

Utanríkisráðherra ásamt Kumi Naidoo, aðalframkvæmdastjóra Amnesty International - mynd
Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra átti í morgun fundi með þeim Mary Robinson, fyrrverandi forseta Írlands og Kumi Naidoo, aðalframkvæmdastjóra mannréttindasamtakanna Amnesty International, sem bæði eru stödd hér á landi. Loftslagsmál og mannréttindi voru þar aðalumræðuefnin.

Á fundi þeirra Guðlaugs Þórs færði Naidoo ráðherranum þakkir fyrir þá forystu sem Ísland hefði tekið á vettvangi mannréttindaráðs Sameinuðu þjóðanna á þessu ári. Í mars síðastliðnum fór Ísland fyrir hópi 36 ríkja í gagnrýni á stjórnvöld í Sádí-Arabíu vegna morðsins á blaðamanninum Jamal Khashoggi og meðferðar á mannréttindafrömuðum í landinu. Þá er þess skemmst að minnast að mannréttindaráðið samþykkti í síðasta mánuði ályktun sem Ísland lagði fram um ástand mannréttindamála á Filippseyjum. Á fundinum í morgun hvatti Naidoo Íslendinga til frekari dáða á vettvangi mannréttindaráðsins og sagði mikilvægt að halda uppi þrýstingi á stjórnvöld í bæði Sádí-Arabíu og Filippseyjum til að bæta stöðu mannréttinda þar.

„Það er mikilvægt að heyra frá þessum fulltrúa þekktustu mannréttindasamtaka í heiminum að framlag okkar á vettvangi mannréttindaráðsins skiptir máli,“ segir Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra. „Við höfum lagt áherslu á að axla þær byrðar sem við teljum eðlilegt að aðildarríki ráðsins axli og munum halda áfram að gera það á meðan við sitjum enn í ráðinu.“

Þá voru loftslagsmál og viðbrögð við yfirvofandi hamfarahlýnun jafnframt til umræðu á fundinum en Naidoo var á meðal viðstaddra þegar afhjúpaður var minnisvarði um jökulinn Ok í gær.
Auk Naidoo sátu fundinn með utanríksráðherra þær Björg María Oddsdóttir, formaður Íslandsdeildar Amnesty International, sem og Anna Lúðvíksdóttir, framkvæmdastjóri.

Mary Robinson, fyrrverandi forseti Írlands og mannréttindastjóri Sameinuðu þjóðanna, er stödd hér á landi í tengslum við minningarathöfnina um jökulinn Ok og fund norrænu forsætisráðherranna sem fram fer á morgun. Á fundi þeirra Guðlaugs Þórs og voru loftslagsmálin fyrirferðarmikil en stofnun hennar, The Mary Robinson Foundation – Climate Justice, beitir sér fyrir svokölluðu loftslagsréttlæti á alþjóðavettvangi. Robinson er jafnframt formaður vettvangs fyrrverandi þjóðarleiðtoga sem kallast Öldungaráðið, The Elders, sem beitir sér fyrir réttlæti og sjálfbærni um allan heim.

Guðlaugur Þór tók áskorun Mary Robinson um að Ísland taki afgerandi afstöðu gegn hamfarahlýnun vel. „Aðgerðir gegn loftslagsbreytingum eru mikilvægur þáttur í okkar utanríkisstefnu og ríkisstjórnin hefur markað sér mjög skýra stefnu í þessum málum. Íslendingar ætla að vera framarlega í þessari baráttu enda höfum við mikilli þekkingu að miðla þegar kemur að sjálfbærri orku og grænum lausnum.“
  • Utanríkisráðherra ásamt Mary Robinson, fyrrverandi forseta Írlands - mynd

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

13. Aðgerðir í loftslagsmálum
16. Friður og réttlæti

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta