Hoppa yfir valmynd
20. ágúst 2019 Forsætisráðuneytið

Forsætisráðherrar Norðurlandanna samþykkja nýja framtíðarsýn Norrænu ráðherranefndarinnar og funda með kanslara Þýskalands í Viðey

Forsætisráðherrar Norðurlandanna ásamt Angelu Merkel, kanslara Þýskalands, í Viðey - myndSigurjón Ragnar

Forsætisráðherrar Norðurlandanna samþykktu á sumarfundi sínum í morgun nýja framtíðarsýn Norrænu ráðherranefndarinnar til næstu tíu ára. Aðgerðir gegn loftslagsbreytingum eru í forgrunni í hinni nýju sýn og munu öll norræn ráðherraráð vinna samkvæmt henni á næstu árum.

Angela Merkel, kanslari Þýskalands, var svo sérstakur gestur á vinnuhádegisverði forsætisráðherranna í Viðey.

Forsætisráðherrarnir og kanslari Þýskalands ræddu tækifæri til þess að auka formlegt samstarf Norðurlandanna og Þýskalands til að takast á við áskoranir á alþjóðavettvangi, ekki hvað síst afleiðingar hamfarahlýnunar og stuðning við sjálfbæra þróun.

Blaðamannafundur var haldinn að loknum vinnuhádegisverðinum þar sem forsætisráðherrarnir og kanslari Þýskalands fluttu stutt ávörp og svöruðu spurningum fjölmiðla.

Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra:

„Það er ánægjulegt að í formennskutíð Íslands í Norrænu ráðherranefndinni hafi norrænu forsætisráðherrarnir samþykkt þá sýn fyrir Norðurlöndin að þau verði sjálfbærasta svæði í heimi árið 2030. Það þýðir að aðgerða er þörf til að ná raunverulegum árangri í loftslagsmálum en ráðherrarnir voru sammála um að aðgerðir væru mikilvægari en orð og Norðurlöndin gætu náð betri árangri saman, bæði inn á við og á alþjóðavettvangi. Niðurstaða fundar okkar norrænu forsætisráðherranna með Þýskalandskanslara var sú að við lítum á áskoranirnar sem blasa við okkur sömu augum og erum sammála um hvaða gildi þurfi að hafa að leiðarljósi þegar við mætum þeim. Hvort sem um er að ræða hamfarahlýnun, framtíð vinnumarkaðarins eða framtíð lýðræðis, þá þurfa aðgerðir okkar alltaf að byggja á sýn okkar um félagslegt réttlæti, kynjajafnrétti og mannréttindi - þess vegna höfum við ákveðið að eiga meira og öflugra samstarf okkar á milli.“

Í tengslum við leiðtogafundinn hefur Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, átt nokkra fundi, meðal annars með Þýskalandskanslara í gærkvöldi. Þá var fundað með hópi norrænna forstjóra, Nordic CEOs for a Sustainable Future, í morgun. Í hópnum eru 14 fyrirtæki á Norðurlöndum sem hafa tilkynnt um samstarf sitt um heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna undir yfirskriftinni „Nordic CEOs for a Sustainable Future“.


  • Forsætisráðherrar Norðurlandanna samþykkja nýja framtíðarsýn Norrænu ráðherranefndarinnar og funda með kanslara Þýskalands í Viðey  - mynd úr myndasafni númer 1

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

5. Jafnrétti kynjanna
11. Sjálfbærar borgir og samfélög
13. Aðgerðir í loftslagsmálum
17. Samvinna um markmiðin

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta