Ráðherrar kolefnisjöfnuðu ferðalagið
Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra fundaði í gær með Norrænum landbúnaðar, sjávarútvegs, matvæla og skógræktarráðherrum um loftslagsbreytingar. Fundurinn var á vegum Norrænu ráðherranefndarinnar, en Ísland fer með formennsku í nefndinni í ár.
Á fundinum var rætt um áhrif loftslagsbreytinga á Norðurlöndin, sér í lagi hvað varðar landbúnað, sjávarútveg og skógrækt. Markmið fundarins var að ræða hvernig Norðurlöndin geti tekist á við loftslagsbreytingar saman, meðal annars með því að binda koltvísýring í jarðveg. Þá á að nýta samtakamáttinn til að beita sér gegn svokölluðum drauganetum í sjónum, sem eru veiðarfæri sem verða eftir og þarf að fjarlægja. Að fundi loknum gróðursettu ráðherrarnir tré í Gunnarsholti til þess að kolefnisjafna ferðir sínar, fengu þar fræðslu um skógrækt og heimsóttu einnig Syðri- Gegnishóla og fengu kynningu á verkefninu „Horses of Iceland.“
Ísland gegnir formennsku í Norrænu ráðherranefndinni árið 2019. Yfirskrift formennskuársins er „Gagnvegir góðir“, sem vísar til vináttu Norðurlandanna sem birtist í öflugu samstarfi en gagnvegir liggja líka út í heim þar sem Norðurlöndin kynna sig sameiginlega og leggja sitt af mörkum til alþjóðasamstarfs. Áherslumál Íslands á formennskuárinu eru þrjú: Ungt fólk, sjálfbær ferðamennska og málefni hafsins.