Ríkisstjórnin samþykkir að leggja fram nýja framkvæmdaáætlun í jafnréttismálum
Ríkisstjórnin samþykkti í morgun að tillaga til þingsályktunar um framkvæmdaáætlun í jafnréttismálum fyrir tímabilið 2020-2023 yrði lögð fram á Alþingi við upphaf 150. löggjafarþings í næsta mánuði.
Í 11 gr. laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla nr. 10/2008 er kveðið á um að framkvæmdaáætlun skuli gerð „að fengnum tillögum einstakra ráðuneyta, Jafnréttisstofu og Jafnréttisráðs“. Þar segir jafnframt að áætlunin skuli „fela í sér verkefni sem ætlað er að tryggja jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla í íslensku samfélagi, sbr. 1. gr. laganna“. Er þessu fyrirkomulagi ætlað að tryggja að forgangsröðun ríkisstjórnarinnar á sviði jafnréttismála sé komið á framfæri með skýrum hætti.
Við undirbúning áætlunarinnar bárust tillögur frá öllum ráðuneytum, alls 24 verkefni, þar af 10 sem forsætisráðuneytið ber ábyrgð á eitt eða í samstarfi við aðra. Í samræmi við stefnu ríkisstjórnarinnar eru öll verkefnin tengd við heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna. Þar er meðal annars fjallað um kynjaða hagstjórn og fjárlagagerð, jafnlaunavottun og jafnrétti á vinnumarkaði, aðgerðir gegn kynbundnu ofbeldi ,jafnrétti í skólastarfi, vísindum og listum og karla og jafnrétti. Verkefnatillögurnar voru samþykktar án athugasemda eftir kynningu á fundi Jafnréttisráðs 28. maí sl. og síðan sendar til umsagnar í samráðsgátt stjórnvalda. Alls bárust sex umsagnir sem komið var á framfæri við ráðuneytin. Umsagnirnar leiddu til breytinga í einu tilviki en verða að öðru leyti hafðar í huga við framkvæmd áætlunarinnar.