Hoppa yfir valmynd
6. september 2019 Innviðaráðuneytið

Björt framtíð fyrir sveitarstjórnarstigið

Ræða flutt á aukalandsþingi Sambands íslenskra sveitarfélaga 6. september 2019

Góðir landsþingsfulltrúar – aðrir gestir.
Nú eru spennandi tímar fyrir okkur Íslendinga. Það eru miklar framfarir í tækni og þekkingu, fjórða iðnbyltingin hefur hafið innreið sína með allri þeirri sjálfvirkni sem henni tilheyrir, nýjum lausnum og hraða. 

Verkefnið Íslands ljóstengt er á lokametrunum og hefur vakið heimsathygli, en með því eru 99,9 prósent heimila og fyrirtækja tengd háharða neti. Við þurfum að hagnýta þessa tækni, sem skapar líka mikil tækifæri fyrir hinar dreifðu byggðir.

Við erum að vinna að mikilli uppbyggingu og fjárfestingu í samgönguinnviðum um allt land sem bætir lífsgæði og stuðlar að jákvæðri byggðaþróun. Þarna skiptir frumkvæði og styrkur sveitarfélaganna sjálfra miklu máli.

Við erum líka að undirbúa stóra sókn í samgöngumálum hérna á höfuðborgarsvæðinu í nánu samstarfi við sveitarfélögin, þar er bæði verið að horfa til mikilvægra stofnbrauta sem eykur umferðaröryggi og bætir flæði innan sem utan svæðisins, en eins er verið að horfa til gríðarlegrar mikilvægrar uppbyggingar í almenningssamgöngum.

Ríkisstjórnin er líka að vinna í því að bæta kjör fólksins í landinu á mörgum sviðum, í menntamálum, húsnæðismálum, í félagsmálum og heilbrigðismálum. Af mörgu er að taka, fæðingarorlofið sem verður lengt í 12 mánuði og stuðningskerfi lánasjóðs námsmanna tekið til gagngerrar endurskoðunar. 

Miklar áskoranir

En það eru líka krefjandi áskoranir sem eru af þeirri stærðargráðu að ríki heims og samfélög um veröld víða þurfa að standa saman og taka til hendinni. Þar ber hæst sú vá sem staðan í umhverfis og loftslagsmálum felur í sér. Hitnun jarðar er alvarleg ógn við okkur öll og ekki síst fyrir okkur sem lifum hér á norðurslóðum. 

Einhverjir eru farnir að tala um hættu á lítilli Ísöld í tilteknum sviðsmyndum, sem myndi hafa mikil áhrif á daglegt líf og kjör Íslendinga. Það er þó enn von, það er hægt er að gera margt til að snúa þróuninni við og ríkisstjórn Íslands er staðráðin í að leggja sitt af mörkum. Ný loftslagsstefna er til marks um það, sem og miklir fjármunir sem renna til beinna verkefna á næstu árum, í nánu samstarfi meðal annars við sveitarfélögin.

Þá þurfa Íslendingar að beita sér fyrir félags- og mannréttindum hvar sem við verður komið. Ójöfnuður og fátækt, kúgun og helsi eru því miður ekki á undanhaldi og staða mála er því miður ekki allsstaðar góð í okkar heimshluta. 
Íslendingar í samstarfi við frændur okkar á Norðurlöndum eru í forystu á þessum sviðum og samstaða okkar og annarra lýðræðisríkja skiptir hér sköpum. Við erum til fyrirmyndar á sviði jafnréttismála og höldum áfram að gera gott þar, lenging fæðingarorlofs er enn eitt dæmið um skýra sýn í þeim efnum – og hér getum við látið gott af okkur leiða – allsstaðar. 

Sterk og sjálfbær sveitarfélög

En til að nýta til fulls tækifærin til sóknar og jafnframt til að takast á við áskoranirnar þá þurfum við líka öflug og sjálfbær sveitarfélög. Sveitarfélög sem bæði geta veitt íbúum sínum bestu þjónustu sem völ er á og unnið að hagsmunamálum þeirra og samfélagsins alls. 
Þáttur sveitarfélaga í nýsköpun og framfaramálum verður seint ofmetin, t.d. við að hagnýta nýjustu tækni, innleiða ný vinnubrögð og nýjar lausnir í opinberum rekstri og þjónustu. Ríkisstjórnin þarf líka öfluga liðsmenn í loftslagsbaráttunni, þar þarf hitt stjórnsýslustigið – sveitarfélögin – að  koma sterkt inn.

Ég vil lýsa sérstakri ánægju minni með það að sveitarfélögin eru að taka gott frumkvæði í að innleiða heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna inn í sína stefnumótun og þróa mælikvarða sem segja til um framganginn. Ég tel að hér geti íslensku sveitarfélögin búið til ferla og verklag sem nýst geta sveitarstjórnarstiginu í öðrum löndum og lýsi ég yfir vilja okkar í samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu til að styðja sveitarfélögin enn frekar við þetta verkefni.

Það gæti t.d. verið í formi stuðnings úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga til að þróa mælikvarða og til að kynna verkefnið og árangur okkar á alþjóðavettvangi. Hvernig væri t.d. að boða til alþjóðlegrar ráðstefnu á Íslandi næsta haust þar sem íslensk sveitarfélög miðla af góðri reynslu sinni á þessu sviði.

Og þó að ég sé að kalla eftir öflugum sveitarfélögum þá er líka mikilvægt að undirstrika að enginn er eyland –  en Samband íslenskra sveitarfélaga gegnir mikilvægu hlutverki sem samnefnari og samræmingaraðili fyrir hönd sveitarfélaganna, meðal annars gagnvart Stjórnarráðinu og Alþingi.

Þetta hlutverk sambandsins hefur verið að eflast og styrkjast, ég vil hrósa stjórn þess og framkvæmdarstjórn fyrir fagleg vinnubrögð og góða samvinnu.

Stefna í málefnum sveitarfélaga

Við þurfum sterk og öflug sveitarfélög segi ég og meina, og þess vegna er það ánægjulegt að nú hefur litið dagsins ljós – í fyrsta skipti – metnaðarfull stefna í málefnum sveitarfélaga til 15 ára. Ég leyfi mér að segja – og taka aðeins stórt til orða – að hér sé um að ræða eina áhugaverðustu tillögu til umbóta í opinberri stjórnsýslu í langan tíma.

Drög að tillögu til þingsályktunar um stefnuna hefur verið sett í samráðsgátt stjórnarráðsins og líkt og Valgarður gat um áðan, er hún afurð af víðtæku samráði um allt land.

Ég segi metnaðarfull áætlun – og við það stend ég þó ég viti að mörgum finnist tillagan sumpart ganga of skammt og öðrum of langt. 

Ég er hins vegar sannfærður um það, gangi þessi tillaga fram og fái stuðning Alþingis, þá er stigið mjög mikilvægt skref í þá átt að efla sveitarstjórnarstigið, auka sjálfbærni sveitarfélaganna þannig að þau geti betur nýtt tækifærin sem ég nefndi áðan, bætt þjónustu við íbúana og unnið markvisst að því að ná árangri gagnvart öllum þeim áskorunum sem þau standa frammi fyrir. 

Tíminn mun svo leiða í ljós hvaða fleiri skef verða stigin til að ná enn betur þessum markmiðum. Aðalatriði er þó það, að sveitarstjórnarstigið þarf að þróast í takt við breytta tíma, þarfir samfélagsins, og því er ánægjulegt að nú er komin fram tillaga að stefnumörkun sem hægt er að vinna skipulega eftir til að tryggja að svo verði. 

Það er alla vega ekki gott að láta þetta bara gerast, eins og kannski hefur verið reyndin að einhverju leyti, því þá er hættan sú að það gerist ekki neitt. Það hefur ekki þótt gott í minni sveit að láta reka á reiðanum – við viljum heldur ekki gera það með opinbera stjórnsýslu og þjónustu við fólk.

Markmið áætlunarinnar

Markmið stefnunnar eru skýr, en þau eru

  • að sveitarfélög á Íslandi verði öflug og sjálfbær vettvangur lýðræðislegrar starfsemi,
  • að sjálfsstjórn og ábyrgð sveitarfélaga verði virt 
  • og að tryggð verði sem jöfnust réttindi og aðgengi íbúa að þjónustu.

Stefnumörkuninni fylgir aðgerðaráætlun til fimm ára og tilgreindar eru ellefu aðgerðir sem vinna ber að til að ná settum markmiðum. 
Stefnuna og aðgerðaráætlunina skal svo endurskoða að þremur árum liðnum og þá gefst tækifæri til að bæta við aðgerðum og skerpa á leiðum til að ná enn betur settum markmiðum.

Tillaga um lágmarksíbúafjölda

Sennilega er fyrsta aðgerðin sú róttækasta – og þar af leiðandi umdeildust – en hún felur í sér að sett verði að nýju ákvæði í sveitarstjórnarlög um lágmarksíbúafjölda. Slíkt ákvæði var í lögum frá 1961 til ársins 2011. Lagt er til að lágmarksíbúafjöldi verði 250 frá almennum sveitarstjórnarkosningum árið 2022, en 1.000 frá almennum sveitarstjórnarkosningum árið 2026.

Í aðalatriðum er um sambærilega tillögu að ræða og verkefnisstjórn um stöðu og framtíð íslenskra sveitarfélaga lagði til fyrir tveimur árum – líka að undangengnu víðtæku samráði um allt land. Áhrif þessarar tillögu yrðu mikil, því yfir helmingur sveitarfélaga í dag hefur færri en eitt þúsund íbúa. Gangi þetta eftir svona gæti sveitarfélögum hér á landi fækkað um helming á tímabilinu.

Ávinningurinn

Í mínum huga er ávinningurinn af þessari einstöku aðgerð mikill. Sveitarfélögin verða betur í stakk búin til að sinna skyldum sínum og þjóna íbúunum sem best. Þau munu ráða betur við verkefni sín án þess að þurfa að reiða sig á umtalsverðan stuðning úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga eða reka sín mál í gegnum frumskóg byggðasamlaga og samstarfssamninga. Sjálfbærni þeirra eykst – lýðræðislegt umboð styrkist – og stjórnsýsla verður enn betur í stakk búin að mæta auknum kröfum um gæði og skilvirkni.

Hagræn áhrif verða einnig umtalsverð nái þessi tillaga fram að ganga, á það hefur margoft verið bent meðal annars af Samtökum atvinnulífsins. Í nýrri greiningu tveggja sérfræðinga er talið að fjárhagslegur ávinningur í kjölfar þessarar aðgerðar gæti numið á bilinu þrír til fimm milljarðar króna á ári. Þá fjármuni væri hægt að nota til að bæta þjónustu við börn og unglinga eða greiða niður skuldir og lækka þar með kostnað.

Þá skapar tillagan frekari grundvöll til að færa fleiri verkefni frá ríki til sveitarfélaga, sem eykur sjálfsábyrgð og lýðræðislega aðkomu á sveitarstjórnarstigi að staðbundnum málefnum.

Enn fremur tel ég að þessi tillaga muni skapa betri skilyrði fyrir einstök svæði og sveitarfélög að sækja fram á sviði byggðamála og atvinnusköpunar, í samskiptum við ríkisvaldið um forgangsröðun verkefna t.d. á sviði samgöngumála.

Fleira mætti nefna, en í mínum huga eru augljós sóknarfæri í þessu fyrir íbúa landsins.

Það sem þarf að passa

Síðan er ýmislegt sem þarf að huga að við þessa framkvæmd. Ýmsir hafa t.d. áhyggjur af því að minni byggðarlög kunni að fara halloka í stærri sveitarfélögum, að allt vald færist til stærri staðanna í sameinuðu sveitarfélagi. 

Það er auðvitað ekki gott ef mál skipast á þann hátt og það er ábyrgðarhluti og skylda hverrar sveitarstjórnar að sjá til þess að svo verði ekki – að valdi sé dreift, að íbúar séu hafðir með í ráðum, að gæðum samfélagsins sé skipt á sanngjarnan hátt. 

Byggðastofnun hefur bent á að það gæti leitt til meiri sáttar um lágmarksíbúafjölda ef hlutverk sveitarfélaga til að verja hinar veikari byggðir væri skilgreint og sett fram jafnhliða ákvörðun um lágmarksíbúafjölda sveitarfélaga. Að mati Byggðastofnunar er eðlilegt að gera kröfu um það að sveitarfélög móti sjálf og geri grein fyrir sinni stefnu varðandi aðsteðjandi vanda um þróun byggðar innan marka viðkomandi sveitarfélags. Þetta finnst mér góðar og uppbyggilegar ábendingar sem vert er að skoða.

Þá er í þróun mjög áhugavert módel í tengslum við tillögu um sameiningu fjögurra sveitarfélaga á Austurlandi. Það er hugsað sem tilraunaverkefni til nokkurra ára en þar sem reynt er að tryggja að minni samfélögin haldi áfram tiltekinni heimastjórn. Rafræn stjórnsýsla og hagnýting nýrrar tækni til að miðla upplýsingum og tryggja samráð og samskipti koma þar við sögu.
Þetta gæti verið fyrirmynd fyrir önnur sveitarfélög og hvet ég til þess að það verði skoðað, en það er heimild í sveitarstjórnarlögum fyrir ráherra að veita undanþágur frá ýmsum ákvæðum laganna í því skyni að gera tilraunir á sveitarstjórnarstigi. Þann möguleika ættu fleiri að skoða.

Af hverju 1.000? – Eða, af hverju ekki?

Þá hefur verið spurt, af hverju þúsund – hvers vegna ekki eitthvað annað? Ég get alveg eins spurt – af hverju ekki? Einfalt svar gæti falist í því að við höfum ekki reynt þetta áður, 50 íbúamarkmið sem áður var við lýði, myndi ekki skila miklum árangri í dag og væri til lítils. Eitt þúsund er sú tala sem oftast hefur komið upp sem tillaga á undanförnum árum og kannski má segja að hún sé ágætis málamiðlun, því margir vilja ganga enn lengra. 

Það má líka segja að hún sé hófleg, því eftir sem áður yrðu sveitarfélögin á Íslandi mörg og mörg þeirra enn fámenn enda er í alþjóðlegum samanburði óvíða hægt að finna svo fámenn sveitarfélög sem samtímis hafa miklum skyldum að gegna gagnvart íbúunum sínum. 

Það væri sjálfsagt lítið mál að leyfa sveitarfélögum að fá að vera óáreitt svo fámenn ef skyldur þeirra væru óverulegar, eins og t.d. í Frakklandi og í mörgum Evrópuríkjum þar sem sterk millistjórnsýslustig hefur tekið að sér hin staðbundnu verkefni.

En við höfum valið aðra leið – Norrænu leiðina – sem felur í sér að við viljum deila valdi og efla sjálfsstjórn sveitarfélaga með því að færa sem flest verkefni sem varða daglegt líf íbúanna til þeirra sjálfra. Þess vegna skiptir geta og sjálfbærni sveitarfélaganna máli.
Gangi tillagan eftir hafa íbúar þessa lands eftir sem áður fjölbreytt val á milli sveitarfélaga, enn væru um eða vel yfir 30 sveitarfélög í landinu og þau halda áfram að keppa sín á milli um framboð á þjónustu og gæðum. Þannig að ég held að það sé fínt að byrja við þetta mark og sjá svo til hvernig það þróast þegar fram líða stundir.

Vandaður undirbúningur

Einhverjir hafa mótmælt þessari tillögu á þeim forsendum að hún sé ólýðræðisleg, inngrip í sjálfsstjórnarrétt sveitarfélaga og svo framvegis. Vissulega má segja að það sé verið að setja nýja ramma fyrir skipan sveitarstjórnarstigsins sem geti verið í andstöðu við vilja íbúa á einstökum svæðum. 

Fernt verður þó að hafa í huga hér.

  1. Í fyrsta lagi felur tillagan í sér að íbúar hafa val um leið til að ná settu markmiði. Það er þeirra að ákveða hverjum á að sameinast og kjósa um það í lýðræðislegum kosningum.
  2. Í öðru lagi er gefinn góður tími til undirbúnings og hægt að vinna góða greiningu á valkostum og mati á þeim.
  3. Í þriðja lagi fylgir þessu mjög öflugur stuðningur úr Jöfnunarsjóði, sem þýðir að íbúarnir þurfa ekki að nýta eigin skatttekjur til að standa undir kostnaði við breytingar, heldur fylgir myndarlegur stuðningur til endurskipulagningar á stjórnsýslu og þjónustu við íbúa. 
  4. Og að endingu verða menn að hafa í huga, að það er lýðræðislega kjörið Alþingi sem hefur ákvörðunarréttinn í þessum efnum. Í íslenskri réttarframkvæmd hefur almennt verið gengið út frá því löggjafinn geti tekið ákvarðanir um staðarmörk sveitarfélaga án sérstaks samráðs, eða kosningu íbúa þeirra sveitarfélaga sem um ræðir.

Almennt getur það vissulega verið svo að ákvarðanir Alþingis á ýmsum sviðum geti verið í andstöðu við vilja manna. Við verðum þó að virða vilja Alþingis sem hlýtur að horfa til heildarhagsmuna samfélagsins og nauðsynlegrar þróunar á skipan sveitarstjórnarmála. 

Stuðningur Jöfnunarsjóðs

Önnur mikilvæg aðgerð í þingsályktunartillögunni er tillaga um stóraukinn stuðning Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga við sameiningar. Drög að útfærslu á nýjum reglum hafa verið unnin í ráðuneytinu og voru þau kynnt nú í vikunni og eru til umsagnar. Samkvæmt tillögunni gæti á bilinu 10 til 15 milljarðar runnið til sveitafélaga í tengslum við þetta átak, til niðurgreiðslu skulda, til að styrkja innviði í nýsameinu sveitarfélagi, eða til nýsköpunar. 

Nýmæli við þessa framsetningu á reglum er sú, að nú getur hvert sveitarfélag séð hve mikill stuðningurinn er óháð því hvaða sveitarfélagi það hyggst sameinast. 

Það munar um þennan stuðning, sem sumpart er einnig mikill byggðastuðningur því ég geri ráð fyrir því að hann nýtist í meira mæli utan höfuðborgarsvæðisins. Hann er líka hlutfallslega mestur í fámennari sveitarfélögum. Ég mun taka upp á vettvangi ríkisstjórnarinnar þá hugmynd að ríkissjóður komi einnig í einhverju mæli að fjármögnun þessa mikilvæga átaks til eflingar sveitarstjórnarstigsins.

Starfsaðstæður kjörinna fulltrúa

Ágætu landsþingsfulltrúar.

Einni aðgerðinni er ætlað að bæta starfsaðstæður kjörinna fulltrúa og gæta að kynjajafnrétti sveitarstjórnarfólks. Samkvæmt tillögunni skal vinna greiningu á starfsaðstæðum og starfskjörum kjörinna fulltrúa í sveitarstjórnum hér á landi og bera saman við aðstæður annars staðar á Norðurlöndum.

Þetta er gott mál að mínu mati og tímabært, en mikil endurnýjun í hópi sveitarstjórnarmanna, a.m.k. eftir síðustu tvennar sveitarstjórnarkosningar, um eða yfir 50%, vekur upp spurningar margar spurningar um starfsaðstæður kjörinna fulltrúa. Þótt ákveðin endurnýjun sé í sjálfu sér jákvæð er þessi mikla endurnýjun umhugsunarefni og er jafnvel talað um brottfall í því sambandi. Því er það álitaefni hvort og þá hvernig hægt sé að hafa áhrif á þessi mál og hvernig stefnumótun til framtíðar getur tekið á þáttum sem að því snúa.

Áætlun um opinber störf

Enn annarri aðgerð er ætlað að stuðla að aukinni fjölbreytni í atvinnulífi um allt land og bæta forsendur fyrir jöfn tækifæri sveitarfélaga óháð stærð og staðsetningu til sjálfbærs vaxtar.

Ég tel mikilvægt að samhliða stefnumörkuninni verði ráðist í átak til að fjölga opinberum störfum á landsbyggðinni. Með því móti verði leitast við að styrkja atvinnugrundvöll í nýsameinuðum sveitarfélögum víða um land, og nýta um leið stafræna innviði. Aðgerðin miðar að því að unnin verði greining á stöðu þessara mála sem nýtist við að móta aðgerðaáætlun um fjölgun opinberra starfa á landsbyggðinni.

Á þeim svæðum sem eru í mikilli fjarlægð frá höfuðborgarsvæðinu hafa menn áhyggjur af neikvæðri byggðaþróun og því að sameining sveitarfélaga ein og sér geti ekki breytt þeirri þróun. Fleira þurfi að koma til, sjálfbærni samfélaga tengist ekki bara stærð sveitarfélags og stjórnsýslu þess heldur líka stöðu atvinnulífs, tekjumöguleikum og fjölbreytni og nútímakröfum um lífsgæði og þjónustu. Sameining tveggja eða fleiri veikra sveitarfélaga býr ekki sjálfkrafa til eitt sterkt.

Þess vegna er mikilvægt að við, líkt og flest Norðurlöndin, mótum stefnu um jafnari dreifingu á opinberum störfum og hér er komið kærkomið tækifæri til að vinna slíka áætlun og framkvæmda samhliða eflingu sveitarstjórnarstigsins.

Framkvæmdin

Það er ekki tími hér til að fjalla um allar aðgerðirnar, en skoða ber þær allar sem mikilvægan hluta af þessari fyrstu stefnumörkun í málefnum sveitarfélaga. Þeim er ætlað að vinna að settum markmiðum og skilvirk framkvæmd stefnunnar leiðir okkur fram á veginn. Þið hafið eflaust kynnt ykkur efni hennar vel og allar aðgerðir, og ég hlakka til að heyra ykkar sjónarmið. 

Þessi fundur er mikilvægur liður í samráðsferlinu, sem lýkur formlega þann 10. september næstkomandi. Ég mun skoða vel allar umsagnir og meta hvaða breytingar er þörf á að gera á skjalinu áður en það fer fyrir ríkisstjórn og síðan til Alþingis. Stefna mín er sú að tillagan verði send og dreift á Alþingi í byrjun októbermánaðar.

Það sem hefur einkennt þessa vinnu og undirbúning allan að þeirri tillögu sem hér er til umræðu er að samráð hefur hefur staðið yfir lengi og margir komið sínum sjónarmiðum að. 

Ég þakka öllum þeim sem hafa tekið þátt og lagt á sig að mæta á fundi og skrifa álitsgerðir, þetta er allt mikilvægt. Ekki síst þakka ég nefndinni sem vann að stefnumörkuninni, og öllum þeim komið hafa að gerð hennar.

Hins vegar er það svo, að einhverjir upplifa að ekki sé tekið tilliti til sjónarmiða sem sett eru fram, það þýðir þó ekki að ekki sé hlustað. Það er í þessum málum sem öðrum, þar sem áherslurnar eru ólíkar, að það verður að velja og hafna – samráðið hefur engu að síður leitt fram mismunandi sjónarmið.

Árangurinn af framkvæmd stefnunnar ræðst síðan af samstarfi allra hlutaðeigandi aðila, ekki síst ríkis og sveitarfélaga. Ég mun leggja mitt af mörkum og veit að stjórn sambandsins mun einnig veita okkur gott og uppbyggilegt aðhald og aðstoð við framkvæmdina. Þetta er samvinnuverkefni ríkis og sveitarfélaga, samfélagsins allt, með hagsmuni íbúanna að leiðarljósi.

Framtíðin er björt – en hvað vilja sveitarfélögin gera?

Kæru landsþingsfulltrúar.

Ég hef trú á að þessi stefna leiði sveitarstjórnarstigið vel til móts við framtíðina – til að nýta tækifærin og til að takast á við áskoranir. 
Tillagan felur í sér að pólitísk forysta er efld í sveitarfélögum um allt land, til hagsbóta fyrir einstök byggðarlög og íbúana. Ákvæði um íbúamark felur ekki í sér sameiningu byggðarlaga, að þeim þarf að hlúa áfram með ráðum og dáð. Hins vegar er pólitíska forystan sameinuð, stjórnsýslan gerð öflugri og hagkvæmari til hagsbóta fyrir alla – þó aðallega íbúana.

Og nú er spurningin hvað ætlið þið, kæru sveitarstjórnarmenn að gera. Hvernig sjáið þið framtíðina fyrir ykkar sveitarfélög og íbúa? Hvernig verður staðan hjá ykkur eftir 20 eða 30 ár? Verður enn til staðar frumskógur byggðasamlaga þar sem vald er framselt til þriðja aðila? Sveitarfélög sem reiða sig á fjármögnun úr miðlægum sjóðum? Eða náum við að einfalda skipulagið, efla sveitarstjórnarstigið, bæta þjónustuna við íbúana, nýta fjármagnið betur? Sjáum fyrir fyrir okkur sjálfbær og öflug sveitarfélög?

Tillaga að stefnu í málefnum sveitarfélaga er núna komin fram, hún hefur verið unnin í nánu samráði við ykkur og að miklu leyti einnig að ykkar frumkvæði. Boltinn er núna hjá ykkur.

En ég segi:  Framtíðin er björt – fyrir íslensk sveitarfélög – en saman getum við gert hana enn bjartari.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta