Hoppa yfir valmynd
6. september 2019 Heilbrigðisráðuneytið

Greiðsluþátttaka vegna neyðarhnappa

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra hefur gert breytingu á reglugerð um styrki vegna hjálpartækja sem tryggir íbúum í leiguíbúðum á vegum sveitarfélaga sama rétt til greiðsluþátttöku sjúkratrygginga vegna kaupa á neyðarhnappi og aðrir.

Með reglugerðarbreytingunni er brugðist við áliti umboðsmanns Alþingis. Álitið fjallaði um kvörtun einstaklings sem var leigjandi í íbúð sveitarfélags og var synjað um styrk til kaupa á neyðarhnappi á þeirri forsendu að greiðsluþátttaka sjúkratrygginga vegna neyðarhnappa næði ekki til íbúða á vegum sveitarfélaga.

Meginniðurstaða umboðsmanns Alþingis er sú að ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands um að synja um greiðsluþátttöku og staðfesting úrskurðarnefndar velferðarmála á þeirri ákvörðun hafi ekki byggt á málefnalegum sjónarmiðum né skýrri lagaheimild. Umboðsmaður bendir m.a. á að einstaklingar sem halda heimili í leiguíbúðum á vegum sveitarfélaga séu almennt í sambærilegri stöðu og þeir sem halda heimili í öðrum leigu- eða eignaríbúðum.

Heilbrigðisráðherra segir niðurstöðu umboðsmanns skýra og óumdeilanlega. Því hafi verið bæði rétt og skylt að breyta reglugerðinni og afnema þá mismunun sem falist hefur í gildandi fyrirkomulagi varðandi öryggishnappana sem eru mikilvæg öryggistæki fyrir þá sem þurfa þeirra með: „Stjórnvöldum ber að gæta jafnræðis og byggja ákvarðanir sínar á málefnalegum sjónarmiðum og lög og reglur verða að vera ein skýr og kostur er hvað það varðar“ segir Svandís Svavarsdóttir.

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta