Hoppa yfir valmynd
6. september 2019 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Uppgjör ríkissjóðs á fyrri hluta árs 2019

Fjármála- og efnahagsráðuneytið hefur tekið saman afkomugreinargerð sem inniheldur tekjugreiningu og yfirlit yfir stöðu málefnasviða eftir fyrri helming ársins 2019 í samanburði við áætlaðar fjárheimildir tímabilsins. Byggt er á rekstraryfirliti Fjársýslu ríkisins.

Helstu niðurstöður eftir sex mánuði eru:

  • Rekstrarafkoma tímabilsins er neikvæð um 3,3 ma.kr. en áætlun gerði ráð fyrir að yrði jákvæð um 3,2 ma.kr. Rekstrarafkoma er því 6,5 ma.kr. lægri en áætlað var.
  • Tekjur tímabilsins án fjármunatekna námu 386,2 ma.kr., sem er 3,6 ma.kr. lægri en áætlun fjárlaga gerði ráð fyrir.
  • Gjöld tímabilsins án fjármagnsgjalda eru 387,4 ma.kr., sem er 0,8 ma.kr. lægri en áætlun.
  •  Fjármagnsjöfnuður er 3,4 ma.kr. lakari en áætlað var.
  • Fjárfestingar námu 10,4 ma.kr. og voru 7,5 ma.kr. lægri en áætlanir gerðu ráð fyrir.
  • Tilfærslur námu alls 177,3 ma.kr. og voru 3,8 ma.kr. hærri en áætlun gerði ráð fyrir.

Tekjur ríkissjóðs

Innheimtar skatttekjur og tryggingagjöld eru 358,1 ma.kr. sem er 5,9 ma.kr. minni en gert var ráð fyrir í fjárlögum. Tekjur utan skatttekna og tryggingagjalda námu samanlagt 53,6 ma.kr. samkvæmt uppgjörinu og eru 2,3 ma.kr. umfram áætlun.

Rekstur ríkisaðila og verkefna

Útgjöld málefnasviða að frádregnum rekstrartekjum námu þau 399 ma.kr. og voru 7 ma.kr. hærri en áætlað var.

Fjármagnskostnaður, ábyrgðir og lífeyrisskuldbindingar eru með 4,5 ma.kr. útgjöld umfram áætlun, að mestu vegna gengismunar og kostnaðar vegna uppkaupa skuldabréfa. Kostnaður vegna sjúkrahúsþjónustu er einnig með 4,5 ma.kr. umframgjöld, að mestu vegna Landspítala.

Vinnumál og atvinnuleysi er með 2,2 ma.kr. umframgjöld, sem rekja má til áhrifa af gjaldþroti WOW air.

Útgjöld vegna húsnæðisstuðnings eru hins vegar 2,7 ma.kr. lægri en áætlað var og hjúkrunar- og endurhæfingarþjónusta 1,8 ma.kr. lægri en áætlað var.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta