Sóknaráætlanir landshluta: Rúmum milljarði veitt til verkefna árið 2018
Alls var unnið að 73 áhersluverkefnum um allt land og 588 verkefni hlutu styrki úr uppbyggingarsjóðum er námu samtals tæpum 1.107 m.kr samkvæmt samningum um sóknaráætlanir landshluta á árinu 2018. Þetta kemur fram í greinargerð stýrihóps Stjórnarráðsins um framvindu samninga um sóknaráætlanir landshluta og ráðstöfun fjármuna ársins 2018.
Markmið með sóknaráætlunarsamningum er að stuðla að jákvæðri samfélagsþróun, treysta stoðir menningarlífs og auka samkeppnishæfni hvers landshluta og þar með landsins alls. Samningar um sóknaráætlanir landshluta voru undirritaðir af ráðherra sjávarútvegs og landbúnaðar, ráðherra mennta- og menningarmála og formönnum landshlutasamtaka sveitarfélaga í byrjun árs 2015 og gilda þeir til ársloka 2019.
Með sóknaráætlunum er fé veitt til tveggja mismunandi þátta, áhersluverkefna, sem eru á ábyrgð landshlutasamtakanna og uppbyggingarsjóða, sem eru samkeppnissjóðir sem styrkja menningar- og nýsköpunarverkefni, auk annarra verkefna sem falla að sóknaráætlunum landshlutanna. Á þessu fjórða ári samninganna var, sem fyrr segir, unnið að 73 áhersluverkefnum og nam framlag til þeirra tæpum 354 milljónum króna. Alls hlutu 588 verkefni styrki úr uppbyggingarsjóðunum, samtals að fjárhæð 497 milljónum króna.
Stýrihópur Stjórnarráðsins um byggðamál er skipaður fulltrúum frá öllum ráðuneytum og framkvæmdastjóra Sambands íslenskra sveitarfélaga. Formaður er Hólmfríður Sveinsdóttir, samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneyti og verkefnisstjóri er Sigríður K. Þorgrímsdóttir, Byggðastofnun.