Hoppa yfir valmynd
12. september 2019 Utanríkisráðuneytið

Vinnuhópur Norðurskautsráðsins um sjálfbæra þróun samþykkir verkefni um bláa lífhagkerfið og sjálfbærar orkulausnir á Norðurslóðum

Frá fundi vinnuhóps Norðurskautsráðsins um sjálfbæra þróun á Ísafirði. Mynd: Rebekka Þormar. - mynd

Um sjötíu embættismenn frá öllum átta ríkjum Norðurskautsráðsins, fulltrúar frá frumbyggjasamtökum af svæðinu og áheyrnaraðilum, sóttu fund vinnuhóps ráðsins um sjálfbæra þróun (SDWG) sem fram fór á Ísafirði dagana 10.-12. september. Jafnframt naut fundurinn þess að öflug þátttaka var af hálfu fulltrúa ungs fólks sem boðið var til fundarins til að ræða niðurstöður ráðstefnunnar „Velferð, styrkur og samfélagsleg þátttaka ungmenna á norðurslóðum“ sem haldin var í Reykjavík daginn áður. Ísland veitir vinnuhópnum um sjálfbæra þróun formennsku samhliða formennsku landsins í Norðurskautsráðinu. 

Á fundinum voru samþykkt fjögur verkefni sem unnið verður að á næstu tveimur árum á vettvangi SDWG, til viðbótar við þau verkefni sem þegar eru á verkefnaáætlun vinnuhópsins. Tvö þessara verkefna tengjast sérstaklega áherslusviðum í formennsku Íslands í Norðurskautsráðinu. Annars vegar er um að ræða verkefni um bláa lífhagkerfið (Blue BioEconomy), sem snýr einkum að aukinni verðmætasköpun í sjávarútvegi og fullnýtingu sjávarafurða, og hins vegar verkefnið ARENA II sem miðar að því að auka þekkingu á sjálfbærum orkulausnum á Norðurslóðum. Nánari upplýsingar um þessi verkefni verður hægt að nálgast á vefsíðu vinnuhópsins.

Auk hefðbundinna fundarstarfa heimsóttu fundargestir fyrirtæki á svæðinu undir leiðsögn bæjarstjóra Ísafjarðarbæjar, Guðmundar Gunnarssonar og forstöðumanns Háskólaseturs Vestfjarða, Peters Weiss. Fundarmenn kynntu sér m.a. hugmyndarfræði samfélags- og nýsköpunarverkefnisins Blábankans á Þingeyri, sem nýverið hlaut samfélagsviðurkenningu Byggðastofnunar, Landstólpann. Þá lögðu þau leið sína á Suðureyri þar sem þau fengu innsýn í starf fiskvinnslufyrirtækisins Íslandssögu sem í samstarfi við önnur fyrirtæki á svæðinu hefur tvinnað saman hefðbundinni fiskvinnslu og ferðaþjónustu. Að síðustu var farið í frumkvöðlafyrirtækið Kerecis á Ísafirði, sem er leiðandi fyrirtæki á sviði bláa lífhagkerfisins..

Fundurinn á Ísafirði er hluti af röð reglubundinna funda Norðurskautsráðsins og tengdra viðburða sem fara munu fram víðsvegar um landið næstu tvö árin. Fyrsti stjórnarfundur embættismannanefndar ráðsins fór fram í Reykjanesbæ í júní sl. en fundir eru auk þess ráðgerðir í Hveragerði, á Akureyri, Reykjavík og Egilstöðum. Norðurslóðatengdir viðburðir á Íslandi verða vel á þriðja tug á þessu tveggja ára tímabili.

Frekari upplýsingar um Norðurskautsráðið og formennsku Íslands í ráðinu má finna á Stjórnarráðsvefnum. Einnig er hægt að fylgjast með formennsku Íslands á Twitter, @IcelandArctic.


  • Fundargestir heimsóttu fiskvinnslufyrirtækið Íslandssögu. Mynd: Rebekka Þormar. - mynd

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta