Áherslur í fjárlagafrumvarpi: Nýsköpunarumhverfið, ferðaþjónusta til framtíðar og aukið orkuaðgengi
Fyrirmyndaráfangastaðir, stefnumótun á sviði íslenskrar ferðaþjónustu, efling flutnings- og dreifikerfis raforku og bætt rekstrarumhverfi frumkvöðla og nýsköpunarfyrirtækja, eru á meðal helstu áherslumála nýs fjárlagafrumvarps, á málefnasviði Þórdísar Kolbrúnar Reykfjörð Gylfadóttur, ráðherra iðnaðar,- ferðamála og nýsköpunar, sem kynnt var á dögunum.
Ferðaþjónusta til framtíðar
Á árinu 2020 verður lokið við stefnumótun íslenskrar ferðaþjónustu í samvinnu stjórnvalda og atvinnugreinarinnar. Stefnumótunin verður aðgerðabundin og mun byggja á framtíðarsýn og leiðarljósi íslenskrar ferðaþjónustu til 2030, sem birt hefur verið undir yfirskriftinni Leiðandi í sjálfbærri þróun, og Jafnvægisás ferðamála sem er stjórntæki til að meta með reglubundnum hætti áhrif ferðaþjónustu á umhverfi, innviði, samfélag og efnahag landsins.
Aðrar mikilvægar áherslur í ferðamálum snúa m.a. að áframhaldandi eflingu eftirlits vegna skammtímaleigu til ferðamanna. Ákveðið hefur verið að festa í sessi verkefni sem rekið hefur verið í samvinnu atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins og Sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu undir heitinu Heimagistingarvakt. Með því er stuðlað að bættum skattskilum og yfirliti yfir gististarfsemi einstaklinga en skráningar á heimagistingu hafa nærri tvöfaldast frá því að átakið hófst um mitt ár 2018.
Einnig verður áhersla lögð á verkefni um fyrirmyndaráfangastaði í ferðaþjónustu en í Vegvísi í ferðaþjónustu frá árinu 2015 kemur fram að skilgreina eigi fyrirmyndaráfangastaði í ferðaþjónustu þar sem undirbúningur fyrir hönnun og uppbyggingu verði samkvæmt bestu fyrirmyndum. Í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu er unnið að því í samvinnu við umhverfis- og auðlindaráðuneytið og fleiri hagaðila að skilgreina hvað einkennir fyrirmyndaráfangastað í ferðaþjónustu, m.a. með hliðsjón af erlendum fyrirmyndum og alþjóðlegum viðmiðum og leiðbeiningum. Þegar hefur verið ákveðið að Geysir og Skaftafell verði fyrstu fyrirmyndaráfangastaðirnir. Unnið verður að því á árinu að svo geti orðið og í framhaldinu verður horft til annarra landshluta og helstu segla þar.
Orkuaðgengi og orkuskipti
Í orkumálum er gert ráð sérstöku framlagi til orkuskipta, í gegnum Orkusjóð sem er í framhaldi af því framlagi sem úthlutað verður á þessu ári. Aðgerðir í þessa veru byggja annars vegar á aðgerðaráætlun stjórnvalda í loftlagsmálum og hins vegar þingsályktun um aðgerðaráætlun um orkuskipti.
Þá er einnig gert ráð fyrir framlagi í sérstakt þriggja ára átak, sem ráðherra kynnti í byrjun árs, í að flýta þrífösun rafmagns. Meira en fjórðungur af öllu dreifikerfi RARIK er einfasa, sem takmarkar bæði flutningsgetu kerfisins og það hve öflugan rafbúnað er hægt er að nota á hverjum og einum stað. Þrífösun er því mikilvæg út frá orkuskiptum, byggðasjónarmiðum, ferðaþjónustu, landbúnaði og öðrum atvinnutækifærum. Við forgangsröðun verkefna verður horft til þarfar fyrir þrífösun, samlegðaráhrifa með lagningu ljósleiðar og aldri núverandi raflína. Í þessum þriggja ára áfanga verður lögð áhersla á að ljúka þrífösun á tveimur svæðum: Skaftárhreppi og Mýrum.
Gert er ráð fyrir að framlög til niðurgreiðslu húshitunar verði aukin og taki mið af raunverulegri þörf á niðurgreiðslum og fylgi þeim forsendum sem hafa áhrif á kostnað, s.s. íbúaþróun og veðurfar.
Einnig er lagt til tímabundið framlag vegna orkuskipta á Kili í samræmi við áherslur og stefnu stjórnvalda varðandi umhverfismál, eflingu ferðaþjónustu og aukið öryggi í fjarskiptum.
Öflugt nýsköpunarumhverfi
Til nýsköpunar, rannsókna og þekkingargreina sem heyra undir nýsköpunarráðherra verður varið tæpum 10 milljörðum, sem er aukning um rúmlega 640 milljónir króna frá árinu 2019, og byggir á áherslu ríkisstjórnarinnar um að hér á landi sé öflugt nýsköpunarumhverfi. Meðal annarra verkefna eru mótun umgjarðar fyrir stafrænar smiðjur eða fablabs og stuðningur við frumkvöðla og fyrirtæki á sviði grænna tæknilausna ásamt rannsóknum og þróun í starfandi fyrirtækjum.
Nýsköpunarstefna fyrir Ísland verður kynnt á næstu vikum þar sem unnið hefur verið að einföldun á stuðningsumhverfi nýsköpunar með það að markmiði að ná fram aukinni skilvirkni, einföldun regluverks og gagnsæi í opinberum stuðningi. Jafnframt verður lögð áhersla á að bæta rekstrarumhverfi frumkvöðla og nýsköpunarfyrirtækja, allt frá þróun hugmynda til vaxtar og markaðssetningar á erlendum mörkuðum í samræmi við það markmið að auka útflutningsverðmæti á grunni nýsköpunar og bæta samkeppnishæfni atvinnulífs í alþjóðlegu samhengi.
„Í fjárlögunum endurspeglast sú sýn okkar að Íslandi verði áfram hlúð að ferðaþjónustu án þess að gengið sé of nærri náttúru okkar eða nærumhverfi, mikilvægi nýsköpunar til framtíðar og nýtingar vistvænnar orku í þágu allra landsmanna,“ segir Þórdís Kolbrún, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra.