Norrænir ráðherrar jafnréttismála funda í Reykjavík
Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, stýrði árlegum fundi norrænna ráðherra jafnréttismála í morgun.
Á fundi ráðherranna var tekin ákvörðun um að útvíkka jafnréttissamstarf Norðurlandanna þannig að það tæki einnig til málefna hinsegin fólks. Þetta er í samræmi við breytingar sem nú þegar hafa átt sér stað víða á Norðurlöndum og fela m.a. í sér áherslubreytingar í löggjöf til að tryggja aukna vernd gegn mismunun á grundvelli kynvitundar, kyneinkenna, kyntjáningar sem og kynhneigðar.
Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra:
„Þegar horft er til stöðu mannréttinda á alþjóðavettvangi sjáum við að áunnin réttindi fólks eru ekki sjálfsögð. Mannréttindabrot og hatursorðræða gagnvart hinsegin fólki hefur aukist víða og þess vegna er mikilvægt að ríkisstjórnir Norðurlandanna skipi sér í fremstu röð á alþjóðavísu hvað varðar mannréttindi hinsegin fólks.”
Á fundi ráðherranna var jafnframt rætt um samstarf Norðurlandanna við UN Women vegna endurmats á framkvæmdaáætlun SÞ um málefni kvenna frá árinu 1995 sem fram fer á næsta ári. Hvað endurmat hennar varðar telja Norðurlöndin meðal annars mikilvægt að beina sjónum að aukinni þátttöku karla og ungmenna í öllu jafnréttisstarfi og að róðurinn gegn kynbundnu ofbeldi verði hertur sem krefst bæði kerfislægra breytinga og gagnrýninnar umræðu um kynjahlutverk í samfélaginu. Jafnframt vilja Norðurlöndin vinna að mælanlegum árangri hvað varðar kynjafnrétti og valdeflingu kvenna við vinnu að heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna.
„Norðurlöndin eru í lykilstöðu til að sanna að jafnrétti kvenna og karla er markmið sem mögulegt er að ná,” segir forsætisráðherra.
MeToo afhjúpar áskoranir í jafnréttismálum
Ráðherrarnir telja að #MeToo-hreyfingin sýni að enn er mikið svigrúm til að gera betur í jafnréttismálum, bæði á Norðurlöndunum og um heim allan. Á fundinum var ákveðið að fjármagna þriggja ára rannsóknaverkefni um kynferðislega áreitni og ofbeldi á vinnustöðum sem undirbyggi framtíðar stefnumótun Norrænu ráðherranefndarinnar á sviði jafnréttismála.Ráðherrarnir taka þátt í pallborðsumræðum á alþjóðlegri ráðstefnu um MeToo sem sett var í Hörpu í dag og stendur til 19. september nk.