Styrkur til atvinnuuppbyggingar á Norðurlandi vestra
Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamála,- iðnaðar og nýsköpunarráðherra og Unnur Valborg Hilmarsdóttir, framkvæmdastjóri Samtaka sveitarfélaga á Norðurlandi vestra (SSNV) undirrituðu í dag viðauka við þjónustusamning um mat á uppbyggingu nýrrar iðnaðarstarfsemi í Austur Húnavatnssýslu.
Með viðaukanum veitir ráðuneytið SSNV 21 m.kr. í tímabundinn styrk til greiningar á iðnaðarkostum sem gætu hentað Norðurlandi vestra, gerð kynningarefnis og beinnar kynningar fyrir fjárfestum. Markmið þessa samnings er að fjölga fyrirtækjum og störfum á Norðurlandi vestra.
Aðdragandi
Á undanförnum árum hefur verið unnið að uppbyggingu í Austur Húnavatnssýslu. Byggir starfið á þingsályktunartillögu frá 2013 um átak stjórnvalda og sveitarfélaga í Austur Húnavatnssýslu til atvinnuuppbyggingar. Tilgangurinn er að skapa þann fjölda starfa sem nauðsynlegur er til að stöðva varanlega fólksfækkun í Austur-Húnavatnssýslu. Markmiðið með átakinu var einnig að efla samkeppnishæfni svæðisins og vinna að markaðssetningu þess, svo sem fyrir gagnaver.
Árið 2016 gerðu ráðuneytið og SSNV þjónustusamning um greiningu á möguleikum á uppbygging nýrrar iðnaðarstarfsemi á svæðinu. Tók samningurinn mið af mikilvægi þess að efla fjölbreytt atvinnulíf á svæðinu sem nýti eftir kostum fyrirliggjandi innviði. Horft var til þess að bæði gæti verið um að ræða uppbyggingu lítilla og meðalstórra fyrirtækja og stærri iðnaðarstarfsemi.
Greining á aðstæðum
Verkefninu var skipt í tvo hluta. Í fyrsta áfanga var dregin upp heilstæð mynd af aðstæðum til uppbyggingar nýrrar iðnaðarstarfsemi sem telst fullnægjandi til að vekja áhuga og svara spurningum þeirra sem eru líklegir til að fjárfesta í atvinnustarfsemi á svæðinu. Þessum þætti lauk í febrúar 2018 með útgáfu skýrslu Mannvits þar sem m.a. var farið yfir stöðu innviða og skipulagsmála, upplýsingar um iðnaðarlóðir, orkuvinnslugetu svæðisins, auðlindir þess og greiningu á tækifærum. Framtakið stuðlaði m.a. að uppbyggingu gagnavera á Blönduósi.
Framkvæmd
Seinni hluti verkefnisins, sá sem hér er samið um, snýst um að leggja mat á það hversu raunhæfar aðrar hugmyndir í skýrslu Mannvits eru út frá m.a. alþjóðlegri tækni- og viðskiptaþróun. Einnig á að gera viðskiptaáætlun og markaðsgreiningu fyrir þau verkefni sem talin eru raunhæf og fara í beina markaðssetningu á þeim verkefnum sem metin eru raunhæfust.
Viðaukasamningurinn gildir til loka janúar 2022.