Tillögur íslenskra ungmenna að aukinni félagslegri þátttöku
Skýrslan NABO-social inclusion of youth in Iceland var birt fyrir skemmstu en þar er gerð grein fyrir félagslegri þátttöku ungmenna á Íslandi. Við gerð hennar var rætt við íslensk ungmenni með það að markmiði að finna leiðir til að stuðla að aukinni félagslegri þátttöku þeirra. Verkefnið miðar að því að hlusta á ungmenni til að afla þekkingar á því hvernig þau upplifa félagslega aðlögun og möguleika til félagslegrar og pólitískrar þátttöku. Í skýrslunni koma fram sjónarmið 38 ungmenna á aldrinum 18-24 ára.
Skýrslan var tekin saman af starfsmönnum Menntavísindastofnunar Háskóla Íslands þeim Ellen Dröfn Gunnarsdóttur, Kristínu Erlu Harðardóttur og Gesti Guðmundssyni. Hún er hluti af þriggja ára norrænu samstarfsverkefni 2018-2020 sem Svíar settu af stað í formennskutíð sinni í norrænu samstarfi árið 2018.
Tilfinningin um að tilheyra samfélaginu mikilvæg
Rætt var við sex rýnihópa við gerð skýrslunnar; LGBTQ hóp, hóp frá Ísafirði, Mosfellsbæ, Breiðholti, Reykjanesbæ og hóp úr Fjölbrautaskólanum í Breiðholti. Niðurstöðurnar gefa til kynna að ungmennin upplifa mismunun vegna ungs aldurs og skort á áhuga og möguleikum til að hafa áhrif á stærri pólitísk úrlausnarefni. Þau upplifa vanda við að komast í eigið húsnæði og skort á húsnæði á viðráðanlegu verði. Einnig ræddu þau um fjárhagsstöðu sína, geðheilbrigðisvanda og skort á áreiðanlegum og tiltækum almenningssamgöngum. Þau bentu jafnframt á að félagslegur stuðningur og tilfinning um að tilheyra samfélaginu væru þættir sem þau teldu mikilvæga til að auka félagslega þátttöku.
Tillögur til að efla félagslega þátttöku
Í lok skýrslunnar eru settar fram tillögur, byggðar á svörum ungmennanna, sem gætu eflt félagslega þátttöku ungmenna á Íslandi. Má þar nefna:
- fyrirbyggjandi aðgerðir til að taka á því sem hefur neikvæð áhrif á líf ungmenna á Íslandi í dag. Svo sem að auka fræðslu um mismunandi tegundir fíknar og um andlega vanlíðan. Fagaðilar og fólk sem hefur sjálft reynslu af að takast á við slíkan vanda gæti haldið fyrirlestra í skólum um þessi mál.
- auðvelda aðgengi að sálfræðiþjónustu fyrir ungmenni.
- fordómar og óþol eru samtengd fyrirbæri og hafa áhrif á ungmenni. Þá staðreynd þarf að viðurkenna. Vinna þarf gegn fordómum og óþoli í samfélaginu öllu.
- skapa aðstæður fyrir ungt fólk til að taka þátt í og hafa áhrif á ákvarðanir í nærsamfélaginu. Til dæmis að geta tekið þátt í og haft áhrif á umræðu um húsnæðismál, almenningssamgöngur og frístundastarf. Ákvarðanir sem snerta ungt fólk, ættu að byggjast á þekkingu ungs fólks.
- fylgjast með lífskjörum hópa ungs fólks sem við vitum að þurfa sérstakan stuðning samfélagsins. Til dæmis LGBTQ fólk, innflytjendur, ungt fólk með geðraskanir og ungt fólk með fötlun.