Sóknaráætlanir í fyrsta sinn í samráðsgátt stjórnvalda
Samningar um sóknaráætlanir landshluta renna út næstu áramót og drög að nýjum fimm ára samningum liggja fyrir. Landshlutarnir undirbúa nú nýjar sóknaráætlanir sem munu ná yfir tímabilið 2020-2024. Drög að sóknaráætlunum landshluta verða birtar í samráðsgátt stjórnvalda en það er í fyrsta sinn sem mál utan ráðuneyta eru birt þar. Sunnlendingar og Vestfirðingar hafa riðið á vaðið og birt sín drög í gáttinni. Gert er ráð fyrir að aðrir landshlutar muni fylgja í kjölfarið.
Sóknaráætlanir landshluta eru stefnumótandi áætlanir sem taka til starfssvæða landshlutasamtaka sveitarfélaga. Í þeim koma fram stöðumat viðkomandi landshluta, framtíðarsýn, markmið og aðgerðir til að ná þeim markmiðum. Í sóknaráætlunum landshluta er mælt fyrir um svæðisbundnar áherslur sem taka mið af meginmarkmiðum byggðaáætlunar, landsskipulagsstefnu, skipulagsáætlunum, menningarstefnu og, eftir atvikum, annarri opinberri stefnumótun.
Heimamenn í hverjum landshluta bera ábyrgð á mótun og framkvæmd sóknaráætlunar og mikil áhersla er lögð á samráð við íbúa. Haldnir eru opnir fundir þar sem kallað er eftir hugmyndum og tillögum og til að tryggja sem mest samráð opnaði Stjórnarráðið samráðsgátt sína fyrir birtingu á drögum að sóknaráætlunum.
Sóknaráætlanir landshluta voru festar í lög árið 2015 með lögum nr. 69/2015 um byggðaáætlun og sóknaráætlanir. Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið fékk óháðan aðila til að gera úttekt á framkvæmd sóknaráætlana síðastliðið vor þar sem niðurstaðan var að almennt hafi vel tekist til.
Stýrihópur Stjórnarráðsins um byggðamál styður landshlutana við framkvæmd sóknaráætlana og gefur árlega út greinargerð um framvindu samninga og ráðstöfun fjármuna. Í greinargerð fyrir árið 2018 kemur fram að rúmum milljarði hafi verið varið til sóknaráætlana í landshlutunum átta það ár.
- Drög að sóknaráætlun Suðurlands 2020-2024
- Drög að sóknaráætlun Vestfjarða 2020-2024
- Nánar um sóknaráætlanir landshluta
- Mat á framkvæmd sóknaráætlana landshluta 2015 – 2019
- Greinargerð um framvindu samninga og ráðstöfun fjármuna