Dreifing fjármagns til rannsókna, þróunar og nýsköpunar eftir landshlutum rædd á fundi Vísinda- og tækniráðs
Á fundi Vísinda- og tækniráðs í dag kynnti Daði Már Kristófersson, prófessor í hagfræði við Háskóla Íslands, framhaldsúttekt sína um dreifingu fjármagns til rannsókna, þróunar og nýsköpunar eftir landshlutum. Í úttektinni er sjónum m.a. beint að árangurshlutfalli umsókna eftir landshlutum, þ.e. hlutfalli samþykktra umsókna af heildarfjölda umsókna á svæðinu, en á því sést að fjármagn dreifist með tiltölulega jöfnum hætti til þeirra svæða þaðan sem umsóknir berast.
Úttektin staðfestir að margar umsóknir í samkeppnissjóði berast frá aðilum á höfuðborgarsvæðinu og að umsækjendur þaðan njóta mikils stuðnings til rannsókna og nýsköpunar. Umfang stuðnings til höfuðborgarsvæðisins virðist því fyrst og fremst stafa af sókn í sjóði en einnig skýrist það af staðsetningu stærstu háskólanna.
Lítill munur er á árangurshlutfalli umsókna í samkeppnissjóði, þ.e. Rannsóknasjóð og Tækniþróunarsjóð, milli landshluta. Svipaða sögu má segja um dreifingu skattafrádráttar vegna rannsókna og þróunar en í kjölfar nýlegrar hækkunar þaks á endurgreiðslum vegna rannsókna og þróunar fyrirtækja hefur umsóknum fjölgað umtalsvert. Ráðið ræddi mikilvægi þess að kanna betur hvernig því fjármagni er ráðstafað eftir atvinnugreinum en þær upplýsingar liggja ekki fyrir.
Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra:
„Augljóslega er verkefnið að stjórnvöld tryggi jafnræði hvað varðar tækifærin til að sækja í stuðningsumhverfið allt og hvetji stofnanir og einstaklinga um land allt til að sækja meira í rannsókna- og nýsköpunarsjóði. Það er skylda stjórnvalda að byggja upp vísinda- og nýsköpunarstarf um land allt.“
Þá kynnti Lilja Alfreðsdóttir, mennta og menningarmálaráðherra Grænbók um fjármögnun háskóla.
„Það er mikilvægt að við hugum að því hvernig fjárveitingum til háskóla verði háttað til framtíðar og um það er fjallað í grænbókinni. Það hafa orðið miklar breytingar á háskólakerfinu frá því að reglur um fjárveitingar þeirra voru settar fyrir tuttugu árum og brýnt að við mörkum okkur stefnu, í góðu samráði, sem gerir úthlutun fjárveitinga gagnsærri og í meira samræmi við starfsumhverfi og hlutverk skólanna.“
Á fundinum var rætt um mikilvægi þess að koma upplýsingum um rannsóknir og nýsköpun til almennings og til nemenda á öllum skólastigum og að slíka miðlun þurfi að flétta inn í næstu stefnu Vísinda og tækniráðs fyrir árin 2020-2022. Einnig var rætt um mikilvægi aðgangs að rannsóknagögnum og rannsóknaniðurstöðum en tillögur þar að lútandi munu liggja fyrir í lok ársins.
Vísinda- og tækniráð mótar opinbera stefnu í vísindum og tækni á Íslandi og hefur það hlutverk að efla vísindarannsóknir, vísindamenntun og tækniþróun í því skyni að treysta stoðir íslensks samfélags. Forsætisráðherra er formaður ráðsins en auk hennar sitja mennta- og menningarmálaráðherra, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, fjármála- og efnahagsráðherra, heilbrigðisráðherra, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra og umhverfis- og auðlindaráðherra í ráðinu. Formaður skipar tvo menn í ráðið auk þess sem 14 fulltrúar eru tilnefndir í ráðið af ráðuneytum, háskólum og aðilum vinnumarkaðarins.
Framlag til rannsókna og nýsköpunar eftir landshlutum 2014-2018 – Framhaldsúttekt