Efnahagssamvinna efst á baugi á Barentsráðsfundi
Styrking efnahagslegrar samvinnu á Barentssvæðinu var aðalumræðuefnið á ráðherrafundi Barentsráðsins í Umeå í Svíþjóð í dag. Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra sótti fundinn og tók um leið þátt í ráðstefnunni EU Arctic Forum.
Barentsráðið er samstarfsvettvangur Norðurlandanna, Rússlands og Evrópusambandsins. Meginmarkmið ráðsins er að efla samvinnu um sameiginleg hagsmunamál þeirra svæða sem liggja að Barentshafinu, þ.e. norðurhluta Noregs, Svíþjóðar og Finnlands og norðvesturhluta Rússlands.
Á ráðherrafundinum sem fram fór í sænska bænum Umeå í dag, var rætt hvernig styrkja megi efnahagslega samvinnu á Barentssvæðinu. Umhverfismál, æskulýðsmál, menningarmál og heilbrigðismál voru einnig til umræðu. Á fundinum tók Noregur við formennsku í Barentsráðinu af Svíþjóð, sem gegnt hefur formennskunni undanfarin tvö ár.
Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra lagði á fundi Barentsráðsins ríka áherslu á nána samvinnu svæðisbundinna stofnana í norðri og gerði grein fyrir áhersluatriðum Íslands sem formennskuríkis Norðurskautsráðsins.
„Sjálfbærni er rauður þráður í formennsku okkar í Norðurskautsráðinu, ekki aðeins með tilliti til umhverfisins heldur líka fólksins á norðurslóðum. Í því sambandi skiptir ekki síst máli þau tækifæri sem felast í tækniþróun og bættum samgöngum til þess að styrkja nýsköpun og fjölbreytni í atvinnulífi. Þessum markmiðum náum við ekki nema með náinni samvinnu,“ segir Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra.
Utanríkisráðherra, sem formaður Norðurskautsráðsins, tók einnig þátt í pallborðsumræðum um alþjóðasamvinnu á norðurslóðum á ráðstefnunni EU Arctic Forum. Um er að ræða tveggja daga ráðstefnu sem Evrópusambandið og sænska ríkisstjórnin standa að. Með ráðherra í pallborði voru utanríkisráðherrar Finnlands, Indlands, Lettlands, Möltu, Noregs og Svíþjóðar, auk ráðuneytisstjóra danska utanríkisráðuneytisins.
Á ráðstefnunni bar hæst umræður um síaukið vægi norðurslóða í alþjóðasamvinnu og framtíð svæðisins til lengri og skemmri tíma, ekki síst með tilliti til örrar hlýnunar þar samanborið við aðra heimsluta. Einnig var rætt um efnahagsleg sóknarfæri á norðurslóðum og nauðsyn þess að tryggja þar áfram friðsamleg samskipti.