Til umsagnar: frumvarp til breytinga á ýmsum lögum vegna laga um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga
Drög að frumvarpi til laga um breytingu á ýmsum lögum vegna laga um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga, nr. 90/2018 sem varðar stofnanir á málefnasviði heilbrigðisráðherra hefur verið birt til umsagnar í samráðsgátt. Umsagnarfrestur er til 18. október.
Tilefni þessa frumvarps eru ný lög nr. 90/2018, um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga, sem samþykkt voru á Alþingi 13. júní 2018, sem innleiddi persónuverndarreglugerð Evrópusambandsins í íslenskan rétt. Við vinnslu frumvarpsins sem varð að framangreindum lögum var ákveðið að gera aðeins lágmarksbreytingar á ákvæðum annarra laga vegna tilvísana til þágildandi laga um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga, nr. 77/2000. Enn fremur var ákveðið að hvert ráðuneyti fyrir sig myndi í kjölfar gildistöku laganna taka til endurskoðunar einstök ákvæði sérlaga sem falla undir málefnasvið þeirra til að tryggja að vinnsla persónuupplýsinga verði í samræmi við hin nýju lög. Frumvarpinu er ætlað að gera nauðsynlegar breytingar á ákvæðum laga sem heyra undir málefnasvið heilbrigðisráðherra, til þess að tryggja að vinnsla persónuupplýsinga samkvæmt þeim lögum samræmist kröfum laga nr. 90/2018, um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga. Markmið frumvarpsins er að tryggja að þeir aðilar sem vinna með persónuupplýsingar samkvæmt þeim lögum sem heyra undir málefnasvið heilbrigðisráðherra hagi vinnslunni í samræmi við kröfur nýrra laga nr. 90/2018, um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga. Um er að ræða breytingar á lögum um lífsýnasöfn og söfn heilbrigðisupplýsinga nr. 110/2000, lögum um landlækni og lýðheilsu nr. 41/2007, sóttvarnalögum nr. 19/1997 og lögum um brottnám líffæra nr. 16/1991.