Hoppa yfir valmynd
8. október 2019 Utanríkisráðuneytið

Trúnaðarbréfin afhent víða um heim

Helga Hauksdóttir, sendiherra Íslands í Kaupmannahöfn, á leið á fund drottningar í Fredensborgarhöll - myndKeld Navntoft

Nýir forstöðumenn sendiskrifstofa í utanríkisþjónustunni hafa að undanförnu afhent trúnaðarbréf sín og þar með getað formlega hafið störf. Nú síðast færði Helga Hauksdóttir, sendiherra Íslands í Kaupmannahöfn, Margréti Þórhildi Danadrottningu trúnaðarbréf.

Í ágúst tóku gildi flutningar á forstöðumönnum sendiskrifstofa Íslands erlendis en með breytingunum eru konur nú í merihluta forstöðumanna í tvíhliða sendiráðum Íslands í fyrsta sinn. Forstöðumennirnir hafa einn af öðrum afhent trúnaðarbréf sín að undanförnu.

Í lok ágúst afhenti Ingibjörg Davíðsdóttir Haraldi V. Noregskonungi trúnaðarbréf sitt sem sendiherra Íslands í Noregi. Afhendingarathöfnin fór fram í konungshöllinni í Osló. Við athöfnina fór Noregskonungur hlýjum orðum um vinatengsl Íslands og Noregs og var rætt meðal annars um sameiginlegan menningararf ríkjanna, norrænt samstarf, ferðamennsku, viðskipta og efnahagsmál, útivist og sjósund.

Haraldur Noregskonungur og Ingibjörg Davíðsdóttir sendiherra

Haraldur Noregskonungur og Ingibjörg Davíðsdóttir sendiherra

5. september afhenti Jörundur Valtýsson sendiherra António Guterres, aðalframkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna, trúnaðarbréf sitt sem fastafulltrúi Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum. Á fundi sínum ræddu þeir meðal annars loftslagsmál, framfylgd heimsmarkmiðanna, mannréttindamál og áherslur Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum.

Jörundur Valtýsson sendiherra og Antonio Guterres, aðalframkvæmdastjóri S.þ.

Jörundur Valtýsson sendiherra og Antonio Guterres, aðalframkvæmdastjóri S.þ.

Tæpri viku síðar afhenti María Erla Marelsdóttir Frank-Walter Steinmeier, forseta Þýskalands, trúnaðarbréf sitt sem sendiherra Íslands gagnvart Þýskalandi. Þau ræddu á fundi sínum um vel heppnaða heimsókn þýsku forsetahjónanna til Íslands í sumar en einnig um umhverfis- og loftslagsmál og mögulegt samstarf Íslands og Þýskalands á þessum sviðum.

 María Erla Marelsdóttir sendiherra og Frank-Walter Steinmeier, forseti Þýskalands 
María Erla Marelsdóttir sendiherra og Frank-Walter Steinmeier, forseti Þýskalands

Hermann Ingólfsson sendiherra hóf störf sem fastafulltrúi Íslands hjá Atlantshafsbandalaginu í Brussel í ágústbyrjun. Á fundi með Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóra bandalagsins, var m.a. rætt um Íslandsheimsókn hans í sumar. Sterk og náin tengsl Íslands og Noregs bar einnig á góma en Hermann gegndi embætti sendiherra í heimalandi framkvæmdastjórans síðustu fjögur ár.

Hermann Ingólfsson sendiherra og Jens Stoltenberg, aðalfrkvstj. Atlantshafsbandalagsins

Hermann Ingólfsson sendiherra og Jens Stoltenberg, aðalfrkvstj. Atlantshafsbandalagsins

Mánudaginn 16. september afhenti Bergdís Ellertsdóttir Donald Trump forseta Bandaríkjanna trúnaðarbréf sitt sem sendiherra Íslands í Bandaríkjunum. Athöfnin fór fram á skrifstofu forsetans í Hvíta Húsinu.

Donald Trump Bandaríkjaforseti og Bergdís Ellertsdóttir sendiherra

Donald Trump Bandaríkjaforseti og Bergdís Ellertsdóttir, sendiherra

27. september afhenti svo Helga Hauksdóttir Margréti Þórhildi Danadrottningu trúnaðarbréf sitt sem sendiherra Íslands gagnvart Danmörku við hátíðlega athöfn í Fredensborgarhöll. Á fundi sendiherrans með drottningunni ræddu þær vinatengsl Íslands og Danmerkur ásamt sameiginlegum menningararfi ríkjanna. Einnig þakkaði sendiherra fyrir höfðingsskap dönsku þjóðarinnar í tilefni af aldarafmæli fullveldisins á síðasta ári.

Helga Hauksdóttir sendiherra og Hafþór Þorleifsson, eiginmaður hennar, ganga á fund drottningar. Marta Jónsdóttir sendiráðunautur lengst til hægri.

Helga Hauksdóttir sendiherra og Hafþór Þorleifsson, eiginmaður hennar, ganga á fund drottningar. Marta Jónsdóttir sendiráðunautur lengst til hægri. Mynd: Keld Navntovt

Benedikt Jónsson hefur tekið til starfa sem aðalræðismaður Íslands í Þórshöfn í Færeyjum og átt fundi meðal annars með lögmanni og utanríkisráðherra Færeyja.

Loks má geta þess að 12. september afhenti Gunnar Pálsson þjóðhöfðingjum San Marínó trúnaðarbréf sitt sem sendiherra Íslands með aðsetur í Brussel.

Ísland starfrækir 26 sendiskrifstofur í 21 ríki en sendiráð, fastanefndir og ræðisskrifstofur með útsendum starfsmönnum nefnast einu nafni sendiskrifstofur. Breytingarnar sem raktar eru að ofan eru samkvæmt ákvörðun utanríkisráðherra en tilkynnt var um þær fyrir um ári. Engir nýir sendiherrar voru skipaðir heldur um að ræða reglubunda flutninga á forstöðumönnum sendiskrifstofanna.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta