Hoppa yfir valmynd
9. október 2019 Utanríkisráðuneytið

Utanríkisráðherra heimsækir Síerra Leóne

Utanríkisráðherra heimsækir Síerra Leóne - myndUtanríkisráðuneytið
Utanríkisráðherra heimsækir Síerra Leóne - myndUtanríkisráðuneytið

Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra er í Síerra Leóne í vinnuheimsókn þar sem hann hefur kynnt sér þróunarsamvinnuverkefni Íslands í landinu á sviði sjávarútvegs- og jafnréttismála og hitt ráðamenn til að ræða þróunarsamvinnu landanna.

Ráðherra hóf ferðina á heimsókn í grunnskóla þar sem Ísland styður við heilbrigðisverkefni fyrir unglingsstúlkur á blæðingum sem dregur úr brottfalli stúlkna. Síðan var haldið í Aberdeen Women’s Centre, kvennamiðstöð þar sem gerðar eru aðgerðir til að lagfæra fæðingarfistil og gjörbylta þannig lífi kvenna sem þjást af þessum kvilla.

„Það er stórkostlegt að sjá þann árangur sem hefur náðst með þróunarsamvinnuverkefnum Íslands í Síerra Leóne. Hvort sem horft er til heilbrigðisverkefna eða atvinnuuppbyggingar er ljóst að þau skipta máli fyrir heilu samfélögin og bjarga lífi og heilsu kvenna og barna,“ sagði Guðlaugur Þór. 

Fyrr í vikunni átti utanríkisráðherra fundi með Nabeela F. Tunis utanríkisráðherra, Jacob Jusu Saffa fjármálaráðherra, Baindu Dassama félagsmálaráðherra, og Ibrahim Turay aðstoðarsjávarútvegsráðherra Síerra Leóne. Guðlaugur ræddi meðal annars mannréttindamál á fundunum. Þar bar hæst réttindi hinsegin fólks og jafnréttismál, þar með talið limlestingu á kynfærum kvenna, en 80-90 prósent kvenna í Síerra Leóne hafa verið limlestar. Þá ræddi Guðlaugur Þór samstarfsmöguleika Íslands og Síerra Leóne í atvinnulífi, einkum í sjávarútvegi. 

Guðlaugur Þór hitti einnig sérfræðinga sem hafa útskrifast úr skólum Háskóla Sameinuðu þjóðanna á Íslandi. Sérfræðingarnir starfa allir á sínu sviði í Síerra Leóne og leggja sitt af mörkum til framþróunar. Auk þeirra nemenda sem hafa stundað nám á Íslandi hafa nemendur sótt styttri námskeið á vegum Sjávarútvegsskóla Háskóla Sameinuðu þjóðanna í landinu.

Í gær tók Guðlaugur Þór ásamt ráðherrum í ríkisstjórn landins nýja reykofna, vatnsveitu og salernisaðstöðu formlega í notkun í sjávarútvegsbænum Tombo. Í ræðu sinni lagði ráðherra meðal annars áherslu á mikilvægi sjálfbærra fiskveiða og fullvinnslu sjávarafurða. 

Í Tombo styrkir Ísland uppbyggingu vatnsveitu fyrir fjörutíu þúsund manns, almenningssalerni og reykofnaaðstöðu. Í bænum, sem er stærsti sjávarútvegsbær landsins, er aðgangur að rennandi vatni og salernisaðstöðu nánast enginn og framlag Íslands skiptir því sköpum fyrir bæinn. Einnig bætir ný reykofnatækni sem Ísland innleiðir í bænum líf þeirra kvenna umtalsvert sem stunda fiskvinnslu og kemur væntanlega til að skila sér í hærra afurðaverði. 

Heimsókn Guðlaugs Þórs lýkur í dag.

 
  • Utanríkisráðherra heimsækir Síerra Leóne - mynd úr myndasafni númer 1
  • Utanríkisráðherra heimsækir Síerra Leóne - mynd úr myndasafni númer 2

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta