Íslensk sjávarútvegstækni í stöðugri sókn í Rússlandi
Sendiráð Íslands í Moskvu og Íslandsstofa skipulögðu för viðskiptasendinefndar níu íslenskra fyrirtækja til austustu héraða Rússlands, eða Fjaraustursins eins og þau eru kölluð í Rússlandi. Þar eru gjöful fiskimið og mikil útgerð. Þangað er u.þ.b. 2/3 hlutum rússneska fiskveiðikvótans úthlutað, auk þess sem gert er út á alþjóðleg svæði í Kyrrahafi.
Fyrst sótti viðskiptasendinefndin sjávarútvegssýninguna International Fishery Congress í borginni Vladivostok, þar sem Íslendingar voru langfjölmennasta erlenda þátttökuþjóðin. Berglind Ásgeirsdóttir, sendiherra, flutti ræðu við opnunarathöfnina. Sendiráðið og Íslandsstofa voru síðan aðalskipuleggjendur málstofu um hátæknibúnað í sjávarútvegi, þar sem fulltrúar allra fyrirtækjanna höfðu tækifæri til að kynna sínar vörur og þjónustu. Þá tóku Íslendingar einnig þátt í málstofu um fiskeldi. Utan ráðstefnunnar heimsótti sendinefndin tæknifyrirtæki og átti fund með varahéraðsstjóra Primorsky Krai, en Vladivostok er höfuðborg héraðsins.
Frá Vladivostok fór sendinefndin síðan í þriggja daga ferð til Kamtjatka-héraðs. Þar voru fimm stór sjávarútvegsfyrirtæki heimsótt og haldin málstofa og kaupstefna þar sem fyrirtækin kynntu sig. Þangað mættu fulltrúar frá öllum helstu sjávarútvegsfyrirtækjunum á staðnum. Auk þess átti sendiherra og sendinefndin fundi með héraðsstjóra og sjávarútvegsráðherra héraðsstjórnarinnar.
Íslensku fyrirtækin sem áttu fulltrúa í viðskiptasendinefndinni voru Hampiðjan, Kapp, Knarr, Marel, Naust Marine, Nautic, Skaginn3X, Sæplast og Valka. Flest þessara fyrirtækja eru þegar í viðskiptum og selja þjónustu sína til rússneskra sjávarútvegsfyrirtækja.
Mikil tækifæri eru fyrir íslensk fyrirtæki á sviði sjávarútvegstækni að selja lausnir og þjónustu til Rússlands þar sem mikil endurnýjun bæði fiskiskipa og fiskvinnslu á sér nú stað. Flestum þátttakendum þótti ferðin til Fjaraustursins vel heppnuð. Hún vakti líka athygli rússneskra fjölmiðla á staðnum og í sjávarútvegsiðnaðinum, enda hefur sá mikli árangur sem íslensk tæknifyrirtæki hafa náð síðustu misseri í Rússlandi vakið verðskuldaða athygli. Mikil vinna hefur farið í kynningu þeirra undanfarið, t.a.m. var þessi ferð fjórða ferð viðskiptasendinefndar til Rússlands sem sendiráðið og Íslandsstofa skipuleggja á rúmum tólf mánuðum.