Íslenskt mælaborð sem varpar ljósi á velferð barna hlýtur alþjóðleg verðlaun UNICEF
Mælaborð sem ætlað er að tryggja betri yfirsýn yfir velferð barna á Íslandi vann í dag alþjóðleg verðlaun UNICEF (Child Friendly Cities Initiative Inspire Awards) fyrir framúrskarandi lausnir og nýsköpun í nærumhverfi barna. Verðlaunin voru afhent á stórri ráðstefnu UNICEF um innleiðingu barnasáttmálans í sveitarfélögum sem haldin er í Köln í Þýskalandi.
Mælaborðið hefur verið þróað af Kópavogsbæ í samvinnu við félagsmálaráðuneytið og UNICEF á Íslandi en samstarfssamningur þess efnis var undirritaður í júní síðastliðinn og er hluti af heildarendurskoðun á þjónustu við börn og ungmenni sem stjórnvöld standa fyrir. Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra, er staddur í Köln og var viðstaddur þegar Ármann Kr. Ólafsson, bæjarstjóri Kópavogs, tók við verðlaununum ásamt fulltrúum Kópavogs. Á morgun tekur Ásmundur þátt í panel á ráðstefnunni þar sem hann mun fjalla um áherslur íslenskra stjórnvalda er lúta að velferð barna og hvað ríkisvaldið getur gert til að styðja við þjónustu sveitarfélaga sem snýr að börnum. Í kjölfarið mun hann svo funda með Charlotte Petri Gornitzka, aðstoðarframkvæmdastjóra UNICEF.
Stýring aðgerða í þágu barna og betri nýting fjármuna
Mælaborðinu er ætlað að safna tölfræðigögnum og greina þau og er tilgangurinn að fá fram betri mynd af almennri stöðu barna í samfélaginu hverju sinni og beina sjónum stjórnvalda að verkefnum sem brýnt er að takast á við og forgangsraða. Fyrstu drög að mælaborðinu voru kynnt á ráðstefnunni Breytingar í þágu barna sem haldin var á vegum félags- og barnamálaráðherra 2. október síðastliðinn. Þar kom skýrt fram að með mælaborði megi tryggja rétta stýringu aðgerða í þágu barna og þar með betri nýtingu fjármuna. Vonir standa til þess að í náinni framtíð muni það geta nýst hverju og einu sveitarfélagi og þar með landinu öllu.
Gefur byr í seglin
„Ég hef haft sterka sannfæringu fyrir því að með breyttum vinnubrögðum og aukinni samvinnu getum við náð fram byltingu þegar kemur að málefnum barna á Íslandi. Það er mjög ánægjulegt að eitt af þeim samvinnuverkefnum sem lögð hefur verið áhersla á í þessari vegferð sé að fá stóra alþjóðlega viðurkenningu. Það gefur okkur byr í seglin og sýnir að við erum á réttri leið,” segir Ásmundur Einar.
„Mælaborð barna er verkefni sem við erum gríðarlega stolt af hjá Kópavogsbæ og mjög ánægjulegt að það hljóti alþjóðlega viðurkenningu UNICEF. Kópavogsbær hefur lagt áherslu á málefni barna og barnaverndar og vinnur nú að innleiðingu Barnasáttmála SÞ hjá bænum. Mælaborðið er hluti af þeirri innleiðingu og frábært að fá verðlaun sem öðrum þræði eru viðurkenning á metnaðarfullri innleiðingu hans. Markmiðið með mælaborðinu er að við getum forgangsraðað enn betur í þágu barna og vonandi mun það nýtast sem víðast, innanlands sem utan,“ segir Ármann Kr. Ólafsson.