Hagstofan opnar nýjan vef félagsvísa
Hagstofa Íslands hefur opnað nýjan vef félagsvísa sem er ætlað að miðla tölulegum upplýsingum um fjölbreytta mælikvarða félagslegrar velferðar á aðgengilegri hátt en áður. Félagsmálaráðuneytið og Hagstofa Íslands hafa frá árinu 2012, að frumkvæði Velferðarvaktarinnar, safnað og birt árlega samfélagslegar mælingar undir yfirskriftinni félagsvísar. Markmið vísanna nú sem fyrr er að auðvelda almenningi og stjórnvöldum að fylgjast með samfélagslegri þróun.
Vefurinn er opnaður í tilefni af evrópska tölfræðideginum sem haldinn er hátíðlegur sunnudaginn 20. október næstkomandi undir kjörorðinu „Horfðu á staðreyndirnar.“ Þann dag vekja hagstofur í Evrópu athygli á þýðingu og mikilvægi evrópskra hagtalna. Kjörorðið minnir á að lýðræðisríki þarf að standa á traustum grunni áreiðanlegra og hlutlausra tölfræðilegra upplýsinga.
Félagsvísum er ætlað að mæla þætti sem eru í eðli sínu mikilvægir fyrir líf fólks og hafa bein áhrif á félagslega velferð þeirra. Á vef félagsvísa er að finna mælikvarða félagslegrar velferðar sem skiptast í 11 víddir. Félagsvísar gefa heildarmynd af stöðu félagslegrar velferðar innan hverrar víddar.