Hoppa yfir valmynd
24. október 2019 Heilbrigðisráðuneytið

„Aðgát skal höfð…“ Morgunverðarfundur 31. október

Frá skilum starfshóps til heilbrigðisráðherra - mynd

Viðmið í umfjöllun um geðheilbrigðismál í fjölmiðlum verða kynnt á morgunverðarfundinum „Aðgát skal höfð“ sem heilbrigðisráðuneytið boðar til á Grand hótel 31. október næstkomandi. Viðmiðin eru afrakstur starfshóps sem heilbrigðisráðherra skipaði til að setja fram leiðbeiningar um hvernig best megi fjalla um geðheilbrigðismál í fjölmiðlum án þess að ala á fordómum gagnvart fólki með geðrænan vanda. Hópurinn var skipaður í samræmi við ályktun Alþingis stefnu og aðgerðaáætlun í geðheilbrigðismálum og skilaði heilbrigðisráðherra skýrslu sinni í dag.

Eins og fram kemur í skýrslu starfshópsins er lögð áhersla á að hér er einungis um viðmið að ræða, sett fram fyrir fjölmiðla að styðjast við með von um að þau geti auðveldað þeim nærfærna umfjöllun um vandasöm málefni. Hópurinn skipti verkefni sínu í tvennt og vann annars vegar viðmið vegna almennrar umfjöllunar um geðheilbrigðismál og hins vegar viðmið vegna umfjöllunar um sjálfsvíg.

Starfshópurinn leitaðist við að kynna sér málið frá öllum sjónarhornum og fékk því til fundar við sig fjölda sérfræðinga, s.s. notendur geðheilbrigðisþjónustunnar, aðstandendur, fjölmiðlafólk og einnig veitendur geðheilbrigðisþjónustu eins og fram kemur í skýrslunni. Formaður starfshópsins var Anna Gunnhildur Ólafsdóttir, fyrrverandi framkvæmdastjóri Geðhjálpar. Í hópnum sátu einnig fulltrúar frá heilbrigðisráðuneyti, mennta- og menningarmálaráðuneyti, Blaðamannafélagi Íslands, Háskóla Íslands og Samráðsvettvangi geðúrræðanna á höfuðborgarsvæðinu.

Aðgát skal höfð. Morgunverðarfundur 31. október

Viðmiðin verða kynnt á opnum morgunverðarfundi heilbrigðisráðuneytisins á Grand Hótel, Hvammi, fimmtudaginn 31. október kl. 9.00 – 10.30. Fundarstjóri verður Ingibjörg Sveinsdóttir. Dagskráin er eftirfarandi:

Dagskráin

Aðgát skal höfð

09.00   Ávarp heilbrigðisráðherra.

09.10   Í sama liði
Anna G. Ólafsdóttir, formaður nefndar heilbrigðisráðuneytisins um viðmið til að draga úr fordómafullri umræðu um geðheilbrigðismál í fjölmiðlum, og Ragnhildur Aðalsteinsdóttir, fulltrúi í nefndinni og varaformaður Blaðamannafélags Íslands, kynna viðmiðin.

09.30   Hvar liggja mörk fjölmiðla?
Kristinn Rúnar Kristinsson, baráttumaður um vitundarvakningu um geðsjúkdóma, fjallar um óumbeðna athygli fjölmiðla á sér.

09.45   Jókerinn og Jóninn
Lóa Pind Aldísardóttir fjölmiðlakona fjallar um vangaveltur sínar um nálgun og viðmið í vinnu við þátttaraðir um geðsjúkdóma og sjálfsvíg.

10.00   Hin hliðin
Aldís Baldvinsdóttir fjallar um fjölmiðlaumfjöllun og aðgengi sitt að fjölmiðlum síðastliðið haust.

10.15   Umræður með þátttöku fyrirlesara

10.30   LOK

Niðurstöður starfshópsins: Viðmið til að draga úr fordómafullri umræðu um geðheilbrigðismál í fjölmiðlum

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta