Hoppa yfir valmynd
25. október 2019 Matvælaráðuneytið

Endurskoðun nautgripasamnings í höfn - Íslensk nautgriparækt verði að fullu kolefnisjöfnuð og greiðslumark áfram við lýði

Fulltrúar Bændasamtaka Íslands og stjórnvalda hafa skrifað undir samkomulag um endurskoðun á samningi um starfsskilyrði nautgriparæktar. Markmið samkomulagsins er að stuðla að framþróun og nýsköpun í nautgriparækt. Áhersla er lögð á rannsóknir og menntun ásamt sjálfbærari og umhverfisvænni framleiðslu. Samkomulagið er liður í endurskoðun samnings um starfsskilyrði nautgriparæktar frá 19. febrúar 2016.

Fallið verður frá niðurfellingu heildargreiðslumarks sem átti að taka gildi þann 1. janúar 2021 og mun því greiðslumark gilda áfram út samningstímann. Greiðslumark heldur sér þar af leiðandi sem kvóti sem tryggir forgang að innanlandsmarkaði og sem viðmiðun fyrir beingreiðslur. Viðskipti með greiðslumark verða leyfð að nýju frá og með árinu 2020 og munu þau byggja á tilboðsmarkaði sem er sama markaðsfyrirkomulag og gilti á árunum 2011-2016. Vissar takmarkanir verða á viðskiptum með greiðslumark sem verða útfærðar nánar í reglugerð.

Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra:

„Með þessu samkomulagi er verið að stíga mikilvæg skref fyrir frekari framþróun íslenskrar nautgriparæktar, m.a. með því að viðhalda kvótakerfi í mjólkurframleiðslu sem hefur ýtt undir þá miklu hagræðingu sem orðið hefur í greininni til hagsbóta fyrir bændur og neytendur. Þá er ekki síður mikilvægt fyrir hagsmuni neytenda að samstaða er um að efla og tryggja forsendur til samkeppni við vinnslu mjólkurafurða og því verður gerð greining á tækifærum til frekari aðskilnaðar milli söfnunar og sölu á hrámjólk frá vinnslu mjólkurafurða og öðrum rekstri. Samhliða er stefnt að því að stýritæki við verðlagningu mjólkurafurða verði þróuð til meira frjálsræðis með því að taka upp nýtt fyrirkomulag í stað Verðlagsnefndar búvöru, enda er núverandi fyrirkomulag að mörgu leyti tímaskekkja. Loks er rétt að fagna sérstaklega þeirri sterku og metnaðarfullu stefnumörkun sem bændur og stjórnvöld sameinast um að íslensk nautgriparækt verði að fullu kolefnisjöfnuð eigi síðar en árið 2040.“

Arnar Árnason, formaður Landssambands kúabænda:

„Ég tel að hér séum við komin með samning sem er greininni til mikilla heilla. Við erum að festa greiðslumark í sessi og tryggja stýringu á framleiðslu mjólkur, sem hefur sýnt sig að er markaðslega afar mikilvægt og er auk þess samkvæmt vilja 90% greinarinnar. Einnig erum við kúabændur hér að leggja okkar af mörkum í loftslagsmálum með metnaðarfullum markmiðum um kolefnisjöfnun á næstu árum.“

Íslensk nautgriparækt verði að fullu kolefnisjöfnuð

Samningsaðilar eru sammála um það markmið að íslensk nautgriparækt verði að fullu kolefnisjöfnuð eigi síðar en árið 2040. Þetta verði gert m.a. með því að byggja upp þekkingu á losun og bindingu kolefnis, bættri fóðrun, meðhöndlun og nýtingu búfjáráburðar, markvissri jarðrækt og öðrum þeim aðgerðum er miða að því að kolefnisjafna búskap. Slíkar áherslur falla vel að öðrum verkefnum á sviði kolefnisbindingar svo sem skógrækt. Skal að því stefnt að allar afurðir frá íslenskum nautgripabændum verði vottaðar sem kolefnishlutlausar fyrir árið 2040.

Til að stuðla að kolefnishlutleysi íslenskrar nautgriparæktar eru samningsaðilar sammála um að ráðstafa fjármagni af samning um starfsskilyrði nautgriparæktar til aðgerða í loftslagsmálum. 

Tekið verður til skoðunar að innleiða fjárhagslega hvata fyrir bændur til að ná árangri í að auka bindingu kolefnis.

Verðlagsmál endurskoðuð

Í samkomulaginu sameinast stjórnvöld og bændur um að skoða breytingar á verðlagsmálum mjólkurafurða. Gerð verður greining á tækifærum til frekari aðskilnaðar milli söfnunar og sölu á hrámjólk frá vinnslu mjólkurafurða og öðrum rekstri. Þá verður fyrirkomulag verðlagningar mjólkurvara á heildsölustigi tekið til endurskoðunar og skoðaður sá möguleiki að hætta opinberri verðlagningu mjólkurafurða.

Þá er einnig stefnt að því að þróa stýritæki við verðlagningu mjólkurafurða til meira frjálsræðis. Umgjörð verðlagsnefndar búvöru verður tekin til endurskoðunar með það að markmiði að taka upp nýtt fyrirkomulag í stað Verðlagsnefndar búvöru, án þess að slíkt raski forsendum búvörusamnings

Strax í kjölfar undirritunarinnar verður skipaður starfshópur sem fær það hlutverk að útfæra þessi atriði nánar.

Í samkomulaginu er kveðið á um skipan starfshóps sem hefur það hlutverk að fara yfir hugmyndir samningsaðila varðandi aðlögunarsamninga og aukinn stuðning við minni bú. Hópnum er ætlað að meta þörf á aðgerðum annars vegar vegna svæða þar sem framleiðsla hefur dregist saman og hins vegar vegna fyrirhugaðs banns við básafjósum. Jafnframt verði skoðað hvernig hægt er að styðja betur við rannsóknarstarf og hagnýtar rannsóknir fyrir greinina ásamt fræðslu og menntun kúabænda.

Samkomulagið var undirritað að hálfu Bændasamtaka Íslands og Landssambands kúabænda með fyrirvara um samþykki félagsmanna í atkvæðagreiðslu. Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, og Bjarni Benediktsson fjármála- og efnahagsráðherra, undirrituðu samninginn fyrir hönd stjórnvalda  með fyrirvara um samþykki Alþingis á nauðsynlegum lagabreytingum. Unnur Brá Konráðsdóttir var formaður samninganefndar ríkisins.

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

15. Líf á landi
8. Góð atvinna og hagvöxtur

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta