Hoppa yfir valmynd
29. október 2019 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Uppfærð neysluviðmið

Neysluviðmiðin eru nú uppfærð í áttunda sinn á vef félagsmálaráðuneytisins eftir upprunalega birtingu árið 2011. Neysluviðmiðin eru að þessu sinni uppfærð á grunni rannsóknar Hagstofu Íslands á útgjöldum heimilanna á tímabilinu 2013 til 2016, líkt og neysluviðmið ársins 2018. Nýrri gögn yfir útgjöld bjóða ekki upp á nauðsynlega sundurliðun útgjalda, sem útreikningar neysluviðmiða krefjast. Af þeim sökum voru viðmið fyrra árs framlengd með undirvísitölum vísitölu neysluverðs fyrir hvern útgjaldaflokk fyrir sig.

Uppfærslan var unnin af Hagfræðistofnun Háskóla Íslands fyrir félagsmálaráðuneytið og leiðir í ljós hækkun á flest öllum útgjaldaflokkum neysluviðmiðanna. Dæmigerð viðmið hækka að jafnaði um 2,7 prósent en grunnviðmið 0,6 prósent.

Megintilgangur útgjaldarannsóknar heimilanna, sem neysluviðmiðin byggja á, er að afla gagna í grunn fyrir vísitölu neysluverðs. Rannsóknin uppfyllir það hlutverk sem henni er ætlað en hún er ekki gerð í þeim tilgangi að nýta við útreikning neysluviðmiða.  Félagsmálaráðuneytið telur því rétt að skoða hvort breyta þurfi aðferðafræðilegri nálgun við útreikninga viðmiðanna.

Ráðuneytið hefur af þeim sökum ákveðið að setja saman starfshóp til þess að yfirfara og endurskoða þá aðferðafræði sem notuð er við útreikningana. Eins verður tekið til skoðunar hvort rétt sé að færa útgáfuna frá ráðuneytinu til þess að staðfesta enn betur hlutleysi útreikninganna.   

Ráðuneytið leitar nú eftir þátttöku frá Hagstofu Íslands, Alþýðusambandi Íslands, Samtökum atvinnulífsins, Hagfræðistofnun Háskóla Íslands og Umboðsmanni skuldara í starfshópnum ásamt því að tilnefna tengilið frá sér.  

Gert er ráð fyrir að hópurinn starfi frá nóvember 2019 til febrúar 2020 og að vinnunni ljúki með skýrslu þar sem fram kemur tillaga að aðferðafræði við útreikning neysluviðmiða auk tillögu að útgáfuaðila.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta