Hoppa yfir valmynd
30. október 2019 Utanríkisráðuneytið

Björn Bjarnason höfundur nýrrar skýrslu um norræna alþjóða- og öryggissamvinnu

Utanríkisráðherra stýrði fundi norrænu utanríkisráðherranna í dag. Með honum á myndinni eru frá vinstri Martin Eyjólfsson, skrifstofustjóri alþjóða- og öryggisskrifstofu, Lára Kristín Pálsdóttir, sérfræðingur á Norðurlandadeild utanríkisráðuneytisins og Estrid Brekkan, sendiherra Íslands í Stokkhólmi - mynd

Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra er staddur í Stokkhólmi þar sem hann tekur þátt í dagskrá Norðurlandaráðsþings sem fer fram í Stokkhólmi 29.-31. október. Guðlaugur Þór tók þátt í umræðu þingsins um utanríkis- og öryggismál en auk þess hefur hann setið fundi utanríkisráðherra og þróunarmálaráðherra Norðurlandanna sem fara fram samhliða þinginu. Þá átti hann fundi með utanríkisráðherra Færeyja og skrifaði undir samkomulag Íslands, Noregs, Danmerkur og Færeyja um skiptingu landgrunns á Ægisdjúpi.

Á fundi norrænu utanríkisráðherranna fór Guðlaugur Þór fyrir umræðu um aukið norrænt samstarf á sviði utanríkis- og öryggismála. Náðist samstaða um að fela Birni Bjarnasyni, fyrrverandi ráðherra, að skrifa nýja skýrslu þar sem gerðar verða tillögur um hvernig megi þróa samstarf Norðurlandanna enn frekar. Auk þess ræddu ráðherrarnir stöðuna í Sýrlandi og samskiptin við Rússland auk loftslagsmála og útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu.

„Það er mér mikil ánægja að náðst hafi samstaða um frekari eflingu norræns samstarfs á alþjóðavettvangi og ekki síður að Björn Bjarnason skyldi veljast til verksins. Fáir eru eins vel í stakk búnir til að móta framtíðarsýn í þessum málum,“ sagði Guðlaugur Þór. „Efling samstarfsins var forgangsmál í formennsku Íslands í samstarfi norrænu utanríkisráðherranna og mikilvægt að náðst hafi sterk samstaða um þessa tillögu Íslands.“ Fyrsti áfanginn í þessari vinnu var stöðuskýrsla sem forstöðumenn norrænu alþjóðastofnananna unnu og afhentu sl. vor um framkvæmd tillagna úr skýrslu Stoltenbergs frá 2009. Sú skýrsla hefur einnig verið í brennidepli í Norðurlandaráði.

Norrænu utanríkisráðherrarnir áttu einnig fund með forsætisnefnd Norðurlandaráðs þar sem fyrrnefnd skýrsla var til umræðu og öryggispólitísk staða mála á nærsvæðum, í Eystrasalti og á norðurslóðum. Guðlaugur Þór lagði áherslu á að norðurslóðir yrðu lágspennusvæði, sjálfbærni yrði höfð að leiðarljósi en að samhliða verndun yrðu efnahagsleg tækifæri nýtt í þágu íbúa. Í framhaldinu fór fram umræða í þinginu þar sem Guðlaugur Þór sló sama tón í ræðu sinni. Auk norðurslóðamála, fjallaði hann um mikilvægi samstarfs Norðurlandanna á alþjóðavettvangi og samskipti Norðurlandanna og Bandaríkjanna.

Utanríkisráðherrar Íslands, Danmerkur, Færeyja og Noregs undirrituðu tvíhliða samninga um skiptingu landgrunns á Ægisdjúpi norðaustur af Íslandi. Um er að ræða suðurhluta þess svæðis sem liggur á milli efnahagslögsögu landanna og er í daglegu tali nefnt Síldarsmugan. Samningarnir hafa legið fyrir um nokkurt skeið og eru í samræmi við greinargerðir ríkjanna til Landgrunnsnefndar Sameinuðu þjóðanna sem samþykkti kröfur ríkjanna, síðast Íslands árið 2016. Samningarnir tryggja yfirráð ríkjanna yfir þeim auðlindum sem kunna að finnast á landgrunninu en varða ekki veiðiréttindi eða hafið að öðru leyti.

Á fundi norrænu þróunarmálanna sem einnig fór fram í dag var m.a. rætt um fólksfjölgun, nýsköpun í þágu sjálfbærrar þróunar og sjálfbærni sjávartengdrar atvinnustarfsemi, hins svokallaða bláa hagkerfis. Þá ræddu ráðherrarnir mannúðaraðstoð og en vegna átaka víða um heim hafa fjármagni og kraftar alþjóðasamfélagsins verið nýttir til að bregðast við neyðarástandi á kostnað umbóta og forvarnarstarfs sem stuðlar að sjálfbærri þróun.

Þá fundaði Guðlaugur Þór með Janis av Rana, utanríkisráðherra Færeyja, þar sem rætt var um framtíð Hoyvíkursamningsins. Í lok dags opnaði Guðlaugur Þór málþing um hlutverk Norðulandanna á norðurslóðum sem skipulagt var af norrænu sendiráðunum í Stokkhólmi. 

Ræða ráðherra á Norðurlandaráðsþingi.

  • Frá fundi utanríkisráðherra Norðurlandanna - mynd
  • Danmörk tekur við formennsku í norræna samstarfinu á næsta ári - mynd
  • Utanríkisráðherrar Danmerkur, Færeyja og Íslands undirrita samninga um afmörkun landgrunns í Ægisdjúpi - mynd
  • Frá fundi utanríkisráðherra Norðurlandanna með forsætisnefnd Norðurlandaráðs - mynd

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta