Fyrsti fundur nýs Þjóðhagsráðs haldinn í dag
Samspil peningastefnu, fjármálastefnu hins opinbera og ákvarðana á vinnumarkaði við núverandi aðstæður var umfjöllunarefni erindis sem Daníel Svavarsson, forstöðumaður hagfræðideildar Landsbankans, flutti. Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, kynnti undirbúning fjármálaáætlunar og velsældaráherslur. Þá fór Svandís Svavarsdóttir, heilbrigðisráðherra, yfir greiðsluþátttöku sjúklinga, stöðuna, aðgerðir og áhrif á ráðstöfunartekjur. Að lokum fór Tómas Brynjólfsson, skrifstofustjóri skrifstofu efnahagsmála í fjármála- og efnahagsráðuneytinu, yfir græna skatta, hvata og ívilnanir.
Markmið Þjóðhagsráðs er að styrkja samhæfingu hagstjórnar og ákvarðana á vinnumarkaði með hliðsjón af efnahagslegum og félagslegum stöðugleika og áhrifum á loftslagsmál. Þjóðhagsráð skal fjalla um stöðu í efnahags- og félagsmálum og ræða samhengi opinberra fjármála, peningastefnu og kjaramála í tengslum við helstu viðfangsefni hagstjórnar hverju sinni. Í ráðinu sitja forsætisráðherra, fjármála- og efnahagsráðherra og samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga, seðlabankastjóri, forseti ASÍ, formenn BSRB, BHM og KÍ og framkvæmdastjóri SA. Alls eru þetta tíu manns, fimm konur og fimm karlar.