Framtíðarfyrirkomulag skimana fyrir krabbameinum
Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra hefur ákveðið að fela heilsugæslunni að annast skimun fyrir leghálskrabbameinum og að skimun fyrir brjóstakrabbameini verði á hendi Landspítala og Sjúkrahússins á Akureyri þegar samningur Sjúkratrygginga Íslands við Krabbameinsfélag Íslands rennur út í lok árs 2020.
Embætti landlæknis og skimunarráð sem er ráðgefandi fyrir embættið á þessu sviði, kynntu heilbrigðisráðherra í mars síðastliðnum tillögur að breyttu skipulagi á stjórnun, staðsetningu og framkvæmd skimana fyrir krabbameinum. Eins og þar kom fram er áhersla lögð á að skimanir verði hluti af almennri og opinberri heilbrigðisþjónustu.
Fjallað er um skimun fyrir leghálskrabbameini á hendi heilsugæslunnar í umfjöllun á vef Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins (HH). Þar kemur fram að regluleg skimun fyrir leghálskrabbameini geti komið í veg rúmlega 90% tilfella sjúkdómsins. Ein aðalforsenda þess að koma megi í veg fyrir leghálskrabbamein sé reglubundin þátttaka í skimun fyrir sjúkdómnum ásamt þátttöku stúlkna í HPV-bólusetningum sem öllum stúlkum í 7. bekk stendur til boða. Talið er að bólusetningin veiti 70% vörn gegn leghálskrabbameini. Eins og fram kemur í umfjöllun HH hefur nýgengi leghálskrabbameina aukist undanfarin ár og því brýnt að auka til muna þátttöku kvenna í skimun. Hún er nú um 67% en Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin hefur gefi út að æskileg þátttaka sé um 85%.
Heilbrigðisráðherra skipaði í september síðastliðnum verkefnastjórn til að gera tillögur um útfærslu á fyrirliggjandi tillögum og ákvörðunum um breytt skipulag á stjórnun, staðsetningu og framkvæmd skimana fyrir krabbameinum. Áætlað er að verkefnastjórnin skili ráðherra niðurstöðum sínum í desember næstkomandi.